Fótbolti

„99% heimsins mun halda með Dönum“

Óskar Ófeigur Jónsson og skrifa
Connor Roberts fagnar EM-marki sínu á móti Tyrkjum.
Connor Roberts fagnar EM-marki sínu á móti Tyrkjum. AP/Dan Mullan

Connor Roberts, varnarmaður velska landsliðsins, býst ekki við því að margir fyrir utan Wales eigi eftir að halda með liðinu í sextán liða úrslitum Evrópukeppninnar.

Wales og Danmörk spila fyrsta leikinn í sextán liða úrslitunum sem hefjast á laugardaginn.

Danir eiga sér marga stuðningsmenn eftir hvað gerðist fyrir leikmann þeirra Christian Eriksen í fyrsta leik mótsins og hvernig danska liðinu tókst að yfirvinna það áfall og vinna sér sæti í útsláttarkeppninni.

Bakvörðurinn Roberts telur að Wales sé litla liðið í þessum leik en að flestir muni samt halda með Dönum.

„Þetta verður mjög erfitt en vonandi náum við að vinna. Ég held að 99% heimsins munu halda með Dönum í þessum leik,“ sagði Connor Roberts.

„Þó að þetta verði mjög erfitt þá erum við með gott lið. Við erum með góða leikmenn og það er meðbyr með liðinu eftir góða frammistöðu í riðlakeppninni,“ sagði Roberts. Hann skoraði seinna marki velska liðsins í 2-0 sigri á Tyrkjum í riðlakeppninni.

„Þeir eru líka með mjög gott lið og munu fá mikinn stuðning. Við þurfum bara að gefa allt okkar í þetta eftir að við stígum yfir hvítu línuna,“ sagði Roberts.

Connor Roberts er 25 ára og leikmaður Swansea City. Hann skoraði 5 mörk í 46 leikjum í ensku b-deildinni í vetur og er að fara spila sinn þrítugasta landsleik á laugardaginn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×