Fótbolti

Ung­verjar yfir í flestar mínútur í Dauðariðlinum en fóru samt ekki á­fram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ungverjar stóðu sig frábærlega en héldu ekki út á móti Þjóðverjum og því fór sem fór.
Ungverjar stóðu sig frábærlega en héldu ekki út á móti Þjóðverjum og því fór sem fór. AP/Lukas Barth

Íslandsbanarnir í Ungverjalandi voru nálægt því að komast áfram í sextán liða úrslit Evrópukeppninnar í gærkvöldi en þýskt mark í blálokin breytti öllu.

Það gáfu ekki margir Ungverjum mikla möguleika á að vinna sér sæti í útsláttarkeppni eftir að þeir lentu í riðli með heimsmeisturum Frakka, Evrópumeisturum Portúgala og Þýskalandi. Dauðariðilinn í keppninni.

Ungverjar bitu þó frá sér og aðeins jöfnunarmark Þjóðverjans Leon Goretzka sex mínútum fyrir leikslok í lokaleiknum í gærkvöldi kom í veg fyrir að ungverska liðið kæmist áfram í sextán liða úrslitin á kostnað Þjóðverja.

Á endanum voru það hins vegar stóru þjóðirnar þrjár sem komust upp úr F-riðlinum, riðlinum sem Ísland hefði átt að vera í ef liðið hefði haldið út á móti Ungverjum í Búdapest.

Það er aftur á móti athyglisvert að skoða aðeins gang mála í Dauðariðlinum og þá staðreynd að Ungverjar voru lengur yfir í leikjunum sínum og um leið undir í færri mínútur en Frakkar, Portúgalar og Þjóðverjar.

Þeir töpuðu kannski 3-0 í fyrsta leik á móti Portúgal en staðan var enn jöfn í þeim leik eftir 84 mínútur.

Ungverjar voru síðan yfir í 21 mínútu á móti heimsmeisturum Frakka og voru síðan yfir í 71 mínútu á móti Þjóðverjum í gær.

Ungverska liðið náði ekki að vinna leik í riðlinum en var samt yfir í samtals 92 mínútur í leikjunum þremur. Það var níu mínútum lengur en Frakkar, sem unnu riðilinn, voru yfir í leikjum sínum.

Ungverjar voru að sama skapi aðeins undir í sex mínútur í leikjunum sínum þremur en Frakkar voru undir í 35 mínútur. Þjóðverjar voru aftur á móti undir í 161 mínútu af 270 í riðlakeppninni eða sextíu prósent leikja sinna.

  • Lengst yfir í leikjum sínum í F-riðil á EM 2020:
  • Ungverjaland 92 mínútur
  • Frakkland 83 mínútur
  • Þýskaland 51 mínúta
  • Portúgal 40 mínútur
  • -
  • Styðst undir í leikjum sínum í F-riðil á EM 2020:
  • Ungverjaland 6 mínútur
  • Frakkland 35 mínútur
  • Portúgal 64 mínútur
  • Þýskaland 161 mínúta

EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×