Fótbolti

Mount og Chilwell þurfa að fara í sóttkví og gætu misst af tveimur leikjum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mason Mount í baráttu við Billy Gilmour, samherja sinn hjá Chelsea, sem greindist með kórónuveiruna.
Mason Mount í baráttu við Billy Gilmour, samherja sinn hjá Chelsea, sem greindist með kórónuveiruna. getty/Shaun Botterill

Mason Mount og Ben Chilwell þurfa að fara í sóttkví og missa því af leik Englands og Tékklands í lokaumferð riðlakeppninnar á EM í kvöld. Þeir gætu einnig misst af leik Englands í sextán liða úrslitum keppninnar.

Mount og Chilwell áttu í samskiptum við Billy Gilmour, samherja sinn hjá Chelsea, eftir leik Englands og Skotlands á föstudaginn. Í gær var greint frá því Gilmour hefði greinst með kórónuveiruna.

Mount og Chilwell þurfa að fara í sóttkví fram á mánudag, 28. júní. Hins vegar þurfa engir Skotar að fara í sóttkví og Steve Clarke getur því valið úr öllum sínum mönnum nema Gilmour fyrir leikinn gegn Króatíu í kvöld á meðan Gareth Southgate verður án Mounts og Chilwells gegn Tékklandi.

Ef England vinnur ekki D-riðilinn missa tvímenningarnir einnig af leik enska liðsins í sextán liða úrslitum. Vinni England riðilinn leikur liðið þriðjudaginn 29. júní, annars daginn áður.

Mount hefur verið í byrjunarliðinu í báðum leikjum Englands á EM til þessa en Chilwell hefur ekkert komið við sögu.

Leikur Englands og Tékklands hefst klukkan 19:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport EM. Upphitun fyrir þann leik og leik Króatíu og Skotlands hefst klukkan 18:00 á Stöð 2 Sport EM. Klukkan 21:00 verður svo farið yfir leikina í EM í dag í umsjón Helenu Ólafsdóttur og Guðmundar Benediktssonar.


EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×