Erlent

Bólu­efni á þrotum í fá­tækari ríkjum heims

Atli Ísleifsson skrifar
Cyril Ramaphosa er forseti Suður-Afríku og hefur hann hvatt auðugari ríki heims til að hætta því að hamstra bóluefni.
Cyril Ramaphosa er forseti Suður-Afríku og hefur hann hvatt auðugari ríki heims til að hætta því að hamstra bóluefni. EPA

Stór hluti af fátækari ríkjum heims sem fá bóluefni gegn kórónuveirunni í gegnum COVAX-samstarfið svokallaða hefur ekki fengið nægilegt magn af bóluefni sent til að ríkin geti haldið bólusetningaráætlunum sínum áfram.

Bruce Aylward, háttsettur embættismaður hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, segir að 90 milljónum bóluefnaskammta hafi nú verið komið til samtals 131 ríkis í gegnum COVAX, samstarfi ríkja sem komið var á til að tryggja öllum þjóðum aðgang að bóluefni við COVID-19.

Aylward segir þetta þó á engan hátt nóg til að tryggja þjóðum næga vernd gegn veiru sem enn sé í mikilli útbreiðslu. Vöntunin á bóluefni komi á sama tíma og fjöldi Afríkuríkja glímir við þriðju bylgju faraldursins.

Í frétt BBC segir að Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, hafi hvatt auðugari ríki heims til að hætta að hamstra bóluefni og bendir hann á að einungis 40 milljónir skammta hafi verið gefnir til íbúa í Afríku, eða um tvö prósent íbúa álfunnar.

Ramaphosa segir að til að bregðast við ástandinu vinni suður-afrísk stjórnvöld nú með Covax að því að koma upp framleiðslustöð fyrir bóluefni í Suður-Afríku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×