Fótbolti

Hazard: Ég verð aldrei sami leikmaður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eden Hazard mun leiða belgíska landsliðið út á völlinn í lokaleik riðilsins í dag.
Eden Hazard mun leiða belgíska landsliðið út á völlinn í lokaleik riðilsins í dag. AP/Martin Meissner

Belgíski landsliðsmaðurinn Eden Hazard var spurður út í meiðslahrjáð tímabil sín með Real Madrid en kappinn er nú staddur með belgíska landsliðinu á EM.

Real Madrid keypti Harzard af Chelsea fyrir hundrað milljónir evra en hann hefur ekki staðið undir þeim verðmiða og er bara með 5 mörk og 8 stoðsendingar í 43 leikjum með Real.

Eden Hazard fór ekkert í felur með það að þessi ítrekuðu ökklameiðsli hafi haft sín áhrif en um leið er hann staðráðinn að láta til sín taka á stóra sviðinu.

Roberto Martinez, þjálfari Belga, staðfesti á blaðamannafundi fyrir lokaleik riðilsins á móti Finnum í dag að Eden Hazard verði í byrjunarliðinu. Belgar eru komnir áfram í sextán liða úrslitin.

„Ég hef aldrei efast um mína hæfileika en stóra spurningin var hvort ég yrði hundrað prósent klár fyrir Evrópumeistaramótið. Ég er búinn að brjóta þrisvar sinnum á mér ökklann. Ég verð aldrei sami leikmaður og ég var fyrir tíu árum,“ sagði Eden Hazard.

„Ég veit samt að þegar ég er í formi þá get ég sannað mig inn á vellinum og ég er að vinna að því núna,“ sagði Hazard sem er orðinn þekktur fyrir það að mæta í yfirþyngd úr flestum fríum sínum.

„Ég er ekki hundrað prósent ennþá en ég klár í að byrja. Það var planið að koma rólega með mig inn. Það er sérstaklega mikilvægt að vera í sínu besta formi í útsláttarkeppninni. Þá þarf ég að vera í toppformi,“ sagði Hazard.

Hazard hefur komið inn á sem varamaður í tveimur fyrstu leikjum Belga sem unnu þar 3-0 sigur á Rússum og 2-1 sigur á Dönum. Eden lagði upp sigurmark Kevin De Bruyne í leiknum á móti Dönum.

„Við þurfum áfram að vinna að því að verða betri. Við erum að gera okkar besta til þess og byrjum á morgun. Þetta er langt mót og við ætlum að komast eins langt og mögulegt er. Það eru hlutir sem við getum bætt okkur í,“ sagði Hazard.


EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×