Körfubolti

„Kannski ekki maðurinn sem við bjuggumst við að myndi skjóta á sig nýtt rassgat hérna“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Adomas Drungilas og AJ Brodeur í baráttunni í Garðabæ í fyrr í vetur.
Adomas Drungilas og AJ Brodeur í baráttunni í Garðabæ í fyrr í vetur. vísir/Bára

Finnur Jónsson, aðstoðarþjálfari Keflavíkur, sagði að það hafi reynst liðinu erfitt að lenda undir í fyrri hálfleik gegn Þór Þorlákshöfn í kvöld og þurfa að klóra sig til baka. Keflavík er 2-0 undir í úrslitaeinvíginu og með bakið upp við vegg.

„Við lentum í holu í byrjun og það tók gríðarlega mikla orku að koma sér upp úr henni. Þetta var mun betra en í síðasta leik hjá okkur og það er nóg eftir,“ sagði Finnur eftir leik. Mestur varð munurinn á liðunum sautján stig, 43-26.

„Það er stór hola á móti þetta góðu liði, engin spurning. Við þurfum að laga það fyrir næsta leik, að lenda ekki í svona holu. Við þurfum að mæta þeim af sömu hörku og þeir sýna.“

Finni fannst Keflvíkingar ekki vera klárir í byrjun leiks.

„Við vorum bara ekki tilbúnir í hörkuna hérna í byrjun. Þeir hittu eins og svín í byrjun og voru með frábæra skotnýtingu. Það var kannski vegna þess að þeir fengu eitthvað af opnum skotum og við þurfum að gera betur þar. Við þurfum að fara yfir það, strax í kvöld, og bæta okkar leik,“ sagði Finnur.

Adomas Drungilas skoraði 29 stig og sýndi aðeins á sér nýja hlið með því að setja niður sex þriggja stiga skot.

En kom það Keflvíkingum á óvart?

„Óvart og ekki óvart. Þetta er hörkuskotmaður en kannski ekki maðurinn sem við bjuggumst við að myndi skjóta á sig nýtt rassgat hérna. Hann átti frábæran leik,“ sagði Finnur.

Liðin mætast í þriðja sinn á þriðjudaginn og þar verður Keflavík að vinna til að halda sér á lífi í einvíginu.

„Það er rosaleg áskorun fyrir okkur, að sýna úr hverju við erum gerðir. Það sem er búið, að vera efstir í deildinni og allt það, skiptir engu máli í dag, heldur hverjir ætla að mæta og vera klárir að vinna leikinn,“ sagði Finnur.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×