Fótbolti

Talaði við Erik­sen í mánuð um hvernig hann ætlaði að nota hann í Belgíu­leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Eriksen í leiknum á móti Finnum áður en hann fékk hjartastopp í lok fyrri hálfleiks.
Christian Eriksen í leiknum á móti Finnum áður en hann fékk hjartastopp í lok fyrri hálfleiks. AP/Stuart Franklin

Kasper Hjulmand, þjálfari danska landsliðsins í knattspyrnu, var búinn að hugsa upp nýtt hlutverk fyrir Christian Eriksen í leiknum á móti Belgum á EM en ekkert verður að því að Eriksen spili þann leik.

Christian Eriksen er enn að jafna sig á sjúkrahúsi eftir að hann fékk hjartastopp í fyrsta leik Dana á EM en sem betur fer tókst að lífga hann við á vellinum. Eriksen sendi frá sér kveðju í gær en hann á eftir að fara í frekari rannsóknir til að komast að því hvað gerðist.

Hjulmand landsliðsþjálfari talaði um það við Ekstra Bladet hvernig hann ætlaði að nota Christian Eriksen á nýjan hátt í leiknum á móti Belgum sem er næsti leikur liðsins á EM.

„Það er enginn einn sem getur komið í staðinn fyrir Christian. Það er ómögulegt. Christian er hjartað í liðinu okkar og stjórnar taktinum í okkar leik,“ sagði Kasper Hjulmand.

Dönum gekk illa á móti Belgum í Þjóðadeildinni en þeir eru ekki þeir einu sem hafa lent í vandræðum með þetta frábæra belgíska lið. Nú þurfa Danir að ná úrslitum á móti toppliði heimslistans ætli liðið sér áfram í sextán liða úrslit á EM.

„Ég var búinn að hugsa upp nýtt hlutverk fyrir Christian í þessum leik og það var eitthvað sem við höfum ekki séð áður. Ég var búinn að tala um þetta við hann í mánuð og hann var mjög spenntur fyrir því að prófa það en nú verður ekkert að því,“ sagði Hjulmand.

„Nú þurfum við að fara aðra leið en við erum vel undirbúnir. Við erum tilbúnir í stríð og berjast fyrir sætinu. Það sem skiptir mestu máli er að það er í lagi með Christian og þá getum við haldið áfram,“ sagði Kasper Hjulmand.


EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×