Fótbolti

Peter Sch­meichel um á­kvörðun UEFA eftir hjarta­stopp Erik­sen: Þetta var al­gjör­lega fá­rán­legt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kasper Schmeichel horfir á boltann í netinu eftir skalla Finnans Joel Pohjanpalo.
Kasper Schmeichel horfir á boltann í netinu eftir skalla Finnans Joel Pohjanpalo. AP/Martin Meissner

Danska knattspyrnugoðsögnin Peter Schmeichel gagnrýndi harðlega ákvörðunartöku UEFA eftir að Christian Eriksen hné niður í leik Dana og Finna. Schmeichel var mjög ósáttur við að danska liðið hafi þurft að klára leikinn seinna um kvöldið.

Eriksen fór í hjartastopp í lok fyrri hálfleiks og tók talsverðan tíma að koma hjarta hans aftur á stað niður á vellinum áður en hann var fluttur á sjúkrahús. Danski miðjumaðurinn er sagður vera í stöðugu ástandi á sjúkrahúsi og hefur verið í sambandi við liðsfélaga sína.

Sonur Peter Schmeichel, Kasper, er markvörður Dana og því einn af þeim leikmönnum liðsins sem þurftu að manna sig upp í að klára leikinn seinna um kvöldið eftir að hafa fengið það staðfest að þetta liti mun betur út hjá Christian Eriksen.

Peter Schmeichel vildi koma einu á hreint í viðtali við BBC Radio 5 Live.

„Ég vil að það komi formlega fram að mér finnst það algjörlega fáránlegt hjá UEFA að koma fram með þessa lausn,“ sagði Peter Schmeichel.

„Svona hræðilegur hlutur gerist og UEFA gefur leikmönnum tvo möguleika. Þeir þurfa að velja á milli þess að klára þessar 55 mínútur seinna um kvöldið eða koma og spila þær frá hádegi daginn eftir. Ég spyr, hvers konar val er það,“ spurði Schmeichel.

„Svo þú ferð aftur á hótelið þitt sem er í tilfelli Dana 45 mínútum í burtu. Þú getur ekkert sofið því það hefur djúp áhrif á þig að lenda í svona áfalli. Fara síðan aftur í liðsrútuna klukkan átta morguninn eftir til að spila þennan leik,“ sagði Schmeichel.

„Þetta var ekki möguleiki heldur fáránleg ákvörðun hjá UEFA og þeir hefðu þurft að vinna að annarri laus og sýna smá samúð. Þeir gerðu það hins vegar ekki. Þetta var fáránlegt og úrslitin í leiknum skipta hér engu máli,“ sagði Schmeichel.

„Þetta var mjög, mjög erfitt fyrir leikmennina og ég skildi bara ekki þessa ákvörðun. Leikurinn var algjört aukaatriði á þessari stundu. Hvernig getur þú spilað,“ spurði Peter Schmeichel.

Finnar unnu 1-0 sigur á Dönum í leiknum. Eina mark leiksins lak í gegnum hendurnar á Kasper Schmeichel en Danir nýttu sér ekki mikla yfirburði út á velli og klikkuðu meðal annars á vítaspyrnu í leiknum.


EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.


Tengdar fréttir

Danska liðið fékk áfallahjálp

Danska knattspyrnusambandið, DBU, sendi frá sér tilkynningu á Twitter í morgun. Þar kemur meðal annars fram að leikmenn og starfslið liðsins hafi fengið áfallahjálp eftir leik gærdagsins þar sem Christian Eriksen hneig niður og var í kjölfarið fluttur á sjúkrahús.

Þjálfari Dan­merkur: Fengum tvo val­mögu­leika

Kasper Hjulmand, þjálfar danska landsliðsins í knattspyrnu, sagði eftir 0-1 tapið gegn Finnlandi í dag að liðið hafi fengið tvo valmöguleika eftir að Christian Eriksen hné niður undir lok fyrri hálfleiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×