Innlent

Vill helst að fólk fái sama bóluefnið í seinni sprautunni

Birgir Olgeirsson skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. 
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.  Vísir/Vilhelm

Um 20 þúsund eiga eftir að fá seinni skammtinn af AstraZeneca-bóluefninu á höfuðborgarsvæðinu.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir ekki ljóst að svo stöddu hvort nægjanlegt verði af AstraZeneca-efninu til að ljúka seinni bólusetningu allra, ef það gerist verði gripið til varaáætlunar.

Samkvæmt afhendingaráætlun stjórnvalda eiga um 3.800 skammtar af AstraZeneca að berast í næstu viku en eftir tvær vikur eiga rúmlega 20 þúsund skammtar að berast til landsins.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í samtali við mbl.is í dag 16.000 AstraZeneca skömmtum, sem Norðmenn lánuðu Íslendingum í lok apríl, verði skilað í júlí. Sagði Svandís að skammtarnir sem berast í júní verði eyrnamerktir þeim sem eiga eftir að fá seinni skammtinn.

„Við munum reyna að halda áfram með AstraZeneca eins og hægt er og það verður bara að koma í ljós hvort það muni duga eða ekki. Svo höfum við bara varaplan ef svo ber undir,“ segir Þórólfur í samtali við fréttastofu.

Varaplanið er á þá leið að ef ekki verður til AstraZeneca í endurbólusetningu verður Pfizer-bóluefnið gefið.

„Það er í sjálfu sér allt í lagi að gera það, það virkar mjög vel. En það eru fleiri sem munu fá aukaverkanir, beinverki og hita og svo framvegis. Þannig að við reynum að halda sama bóluefni, bæði í fyrri og seinni skammti. “




Fleiri fréttir

Sjá meira


×