Innlent

Grípa til smá­aug­lýsinga vegna lítillar trúar á verk­færum þing­manna

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Hanna Katrín og auglýsing

Við­reisn birti smá­aug­lýsingu í Frétta­blaðinu í dag þar sem óskað var eftir skýrslu sjávar­út­vegs- og land­búnaðar­ráð­herra um um­svif stærstu út­gerðar­fyrir­tækja landsins í ís­lensku at­vinnu­lífi. Þing­menn flestra flokka fóru fram á að skýrslan yrði gerð og var beiðnin sam­þykkt í þinginu fyrir jól.

Hanna Katrín Frið­riks­son, þing­maður Við­reisnar, lagði beiðnina fram en þing­menn frá öllum flokkum nema Sjálf­stæðis­flokki, Mið­flokki og Fram­sókn, settu nafn sitt við hana. Nú hálfu ári síðar hefur ekkert bólað á skýrslunni og segist Hanna Katrín hafa litla trú á þeim verk­færum sem þing­menn hafa til að kalla eftir skýrslu, sem þingið hefur þegar beðið um.

Þess vegna á­kvað Við­reisn að aug­lýsa eftir skýrslunni á smá­aug­lýsinga­síðu Frétta­blaðsins undir dálkinum „Tapað – Fundið“. HVAR ER SKÝRSLAN? er yfir­skrift aug­lýsingarinnar, sem virðist ný­stár­leg leið flokks til að ýta á eftir ráð­herra í máli sem þessu, þó hún sé ef­laust einnig til þess fallin að vekja at­hygli fólks á málinu:

„Svör óskast. Almannahagsmunir eru undir,“ segir í lok auglýsingarinnar.

Skortur á virðingu fyrir löggjafarvaldinu

„Málið er það að þó að Al­þingi sam­þykki einum rómi svona skýrslu og að ráð­herra fái mjög skýr fyrir­mæli Al­þingis um það þá strandar báturinn þar,“ segir Hanna Katrín, sem er farið að lengja eftir skýrslunni, en hún ræddi málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Hún segir þing­menn ekki hafa nein verk­færi til að knýja fram gerð skýrslunnar eftir að búið er að biðja um hana á þingi. „Ég get farið upp í pontu og kvartað og ég get farið í fjöl­miðla en á endanum verður það bara eitt­hvað leiðinda­mjálm í mér vegna þess að það hefur engan þunga. Við höfum ekki önnur úr­ræði því miður.

Ég veit ekki hvað er hægt að gera annað. Kannski snýst þetta að ein­hverju leyti bara um virðingu fram­kvæmda­rvaldsins fyrir lög­gjafar­valdinu.“

Við­reisn birti einnig mynd­band sem fór í dreifingu á sam­fé­lags­miðlum í morgun þar sem lýst er eftir skýrslunni og óskað eftir svörum frá ráð­herranum. Aug­lýsingarnar minna nokkuð á her­ferð sem varð nokkuð fyrir­ferðar­mikil á síðasta ári þegar hópur fólks aug­lýsti eftir nýju stjórnar­skránni.

Mikilvægt innlegg í umræðu um auðlindaákvæði

Skýrslan, sem farið var fram á að ráð­herrann léti gera, á að varpa ljósi á ítök tuttugu stærstu út­gerðar­fyrir­tækja landsins í ís­lensku at­vinnu­lífi.

Hanna Katrín segir þetta afar mikil­vægt inn­legg í um­ræðuna um auð­linda­á­kvæði í stjórnar­skrá og fram­tíðar­fyrir­komu­lag á eignar­haldi sjávar­auð­lindarinnar.

„Ég held líka að það sé ó­þolandi fyrir þá sem eru að stunda sjávar­út­veg, þessa mikil­vægu at­vinnu­grein sem við byggjum svo mikið á, að vera alltaf þetta bit­bein sem þau eru. Og allar stað­reyndir sem við drögum á borðið, þær að minnsta kosti tryggja það að um­ræðan verður byggð á þeim en ekki ein­hverjum sögu­sögnum,“ sagði Hanna Katrín að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×