Innlent

Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur víðs vegar um land

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Hátíð hafsins hefur verið aflýst í ár, en hátíðin hefur verið haldin síðan árið 2002.
Hátíð hafsins hefur verið aflýst í ár, en hátíðin hefur verið haldin síðan árið 2002. HÁTÍÐ HAFSINS

Sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur víðs vegar um land í dag, þótt samkomutakmarkanir setji vissulega sinn svip á daginn. Ýmislegt verður um að vera í Hafnarfirði, Þorlákshöfn, Vestmannaeyjum, á Ólafsfirði, Neskaupstað og Bolungarvík.

Hátíð hafsins sem haldin hefur verið árlega síðan árið 2002, hefur verið aflýst. Á höfuðborgarsvæðinu verður formleg afhending atvikaskráningarkerfisins ATVIK-sjómenn í tilefni dagsins. Kerfið er gjöf frá VÍS til íslenskra sjómanna og er ætlað að fækka sjóslysum. Afhendingin fer fram um borð í skólaskipinu Sæbjörgu hjá Slysavarnaskóla sjómanna klukkan 13.

Þá verður sjómannadagurinn með óhefðbundnu sniði í Hafnarfirði. Þar verður meðal annars boðið upp á fiskasýningu Hafrannsóknarstofnunar við Háabakka, opið hús Siglingaklúbbsins Þyts og ljósmyndasýningu á Strandstígnum. Álfarnir Þorri og Þura munu einnig bjóða til veislu í Hellisgerði klukkan 14.

Í Þorlákshöfn var dagskrá alla helgina, en bærinn heldur jafnframt upp á 70 ára afmæli sitt. Í dag verður boðið upp á sjómannadagsmessu klukkan 11, dagskrá í Skrúðgarði og kaffihlaðborð Björgunarsveitarinnar Mannbjargar. Hægt er að nálgast frekari dagskrá hér.

Sjómannadagskaffi Eykindils fellur niður í Vestmannaeyjum. Þó verður boðið upp á sjómannadagsmessu í Landakirkju klukkan 13, lúðrasveit Vestmannaeyja mun taka lög og Eliza Reed, forsetafrú mun flytja ræðu. Dagskrá Vestmannaeyja er að finna hér.

Á Ólafsfirði var mikið um hátíðarhöld alla helgina. Í dag verður hátíðarmessa, skrúðganga og fjölskylduskemmtun þar sem fjölmargir skemmtikraftar stíga á stokk. Hátíðinni lýkur í kvöld með árshátíð sjómanna í íþróttahúsinu.

Þá verður einnig dagskrá á Neskaupstað og í Bolungarvík í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×