Tíska og hönnun

Hönnuðu gólfpúða úr loftpúðum ónýtra bíla

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Hrefna Sigurðardóttir og Birta Rós Brynjólfsdóttir mynda hönnunarteymið Studio Flétta. 
Hrefna Sigurðardóttir og Birta Rós Brynjólfsdóttir mynda hönnunarteymið Studio Flétta.  Vísir/Sylvía Rut

Birta Rós Brynjólfsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir, sem mynda hönnunartvíeykið Studio Flétta, sýndu á HönnunarMars nýja heimilispúða sem fara í sölu í haust. Verkefnið er hluti af hringrásarvænni hönnun þar sem úrgangi er breytt í verðmæti.

„Við erum að vinna með loftpúða úr bílum og er um að gera úr þeim pullur,“ segir Hrefna um loftpúðaverkefni þeirra sem vakti mikla athygli á HönnunarMars í ár. 

Nýr heimur opnaðist

Loftpúðarnir koma frá fyrirtækinu Netpartar, sem var valið Umhverfisframtak ársins af Samtökum atvinnulífsins árið 2020. Loftpúðarnir eru hluti ónýtra bíla sem er alls ekki hægt að selja sem varahluti og nota aftur. Með þessari hugmynd hafa þessir loftpúðar sem annars hefði verið hent, fengið alveg nýtt hlutverk.

„Þegar við fórum í vettvangsferð í Netparta þá opnaðist bara alveg nýr heimur fyrir okkur, bílapartar,“ segir Birta.

Hönnunin er í vöruþróunarferli og er væntanleg úr framleiðslu í september.

Fyrirtækið Netpartar tekur í sundur ónýta bíla, skráir varahlutina og selur þá til notkunar á nýjan leik eða til endurvinnslu. Studio Flétta dýfði sér inn í heim bílaparta og kom upp úr kafinu með fullt af hugmyndum. Birta og Hrefna heilluðust af litríkum loftpúðunum sem meira að segja skörtuðu ísaum margir hverjir.

Tilbúnir í þetta hlutverk

„Þetta er alveg ótrúlega flott partasala og allt rekjanlegt niður í minnstu smáatriði. Það er alveg góður farvegur fyrir margt þar en loftpúðar höfðu engan farveg og það er engin endurvinnsla á loftpúðum. Út af öryggi er erfitt að selja þá aftur því þau geta ekki gengið úr skugga um að þeir séu í lagi og virki. Þetta var því sent í urðun,“ segir Hrefna.

„Við breyttum þeim lítið því þeir voru eiginlega bara tilbúnir í þetta hlutverk, segir Birta um útlit heimilispúðanna,“ segir Birta.

Þær gerðu mjög litlar breytingar fyrir utan að fylla þá og bæta á púðana hönkum og reim. Loftpúðar eru fyrsta hönnunin sem kemur út úr þessu ferli en meira er á leiðinni. Á HönnunarMars mátti sjá að börn voru einstaklega hrifin af því að sitja á þessum skemmtilegu púðum.

Hönnun Studio Fléttu sem er til sýnis Hjá FÓLK á Hafnartorgi.Vísir/Sylvía Rut

Fallegt skraut sem má leika með

Þar sýndu þær Birta og Hrefna einnig fallega viðargripi sem bæði fullorðnir og börn höfðu gaman af því að skoða.

Íslenskur viður verður fallegur gripur sem má leika sér með Á Íslandi er nú unnt að grisja talsvert magn trjáa úr skógum sem hægt er að nýta til framleiðslu. Verkefni Studio Fléttu fyrir Fólk úr íslenska viðnum var að hanna hlut sem er fallegur á að líta, mann langar að snerta og það má leika sér með. Útkoman eru veltikeilur úr furu í þremur mismunandi formum.  Hönnunin er í framleiðslu og er væntanleg í september líkt og heimilispúðarnir.

Studio Flétta vinna með hönnunarmerkinu Fólk og sýndu vörur sínar í nýju sýningarrými þeirra á Hafnartorgi á HönnunarMars. Sýningin Hringrásarvæn hönnun snýst um að gefa innsýn inn í það hvernig hönnuðir umbreyta úrgangi í verðmæti.


Tengdar fréttir

Mikilvægt að skapa virði úr skapandi greinum

Felgur, loftpúðar, lök og fleiri ónýtir hlutir fengu framhaldslíf í nýrri íslenskri hönnun sem hönnunarmerkið Fólk kynnti á HönnunarMars frá þeim sjö hönnuðum sem þau starfa með.

Hönnuðu jólaketti úr notuðum barnafötum

Jólakettir úr notuðum barnafötum frá Rauða krossinum á Íslandi prýða þessa dagana glugga Rammagerðarinnar á Skólavörðustíg 12. Rammagerðin fékk vöruhönnuðina Birtu Rós Brynjólfsdóttur og Hrefnu Sigurðardóttur til liðs við sig til að hanna jólakött ársins 2020.

Halda uppboð á frumgerðum hönnuðanna í Ásmundarsal

Á morgun fer fram sérstakt uppboð í Ásmundarsal á milli 15:00 og 17:00. Á uppboðinu verða hlutir sýningarinnar Hlutverks til sölu og verður Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkítektúrs í hlutverki uppboðsstjóra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.