Erlent

Fyrr­verandi for­sætis­ráð­herra Dan­merkur látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Poul Schlüter gegndi embætti forsætisráðherra Danmerkur á árunum 1982 til 1993.
Poul Schlüter gegndi embætti forsætisráðherra Danmerkur á árunum 1982 til 1993. Getty

Poul Schlüter, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, er fallinn frá, 92 ára að aldri. Fjölskylda Schlüter greinir frá láti hans á heimasíðu danska Íhaldsflokksins, De Konservative.

Schlüter var formaður Íhaldsflokksins á árunum 1974 til 1993 og gegndi embætti forsætisráðherra Danmerkur á árunum 1982 til 1993. Hann varð fyrsti Íhaldsmaðurinn til að gegna forsætisráðherraembættinu í Danmörku.

Á heimasíðu Konservative segir að Schlüter hafi andast í gærmorgun, í faðmi fjölskyldu sinnar.

Søren Pape, núverandi formaður Íhaldsflokksins, segir að fjölskylda Schlüter hafi misst kæran fjölskyldumeðlim og Danmörk hafi sömuleiðis misst einn þýðingarmesta mann samtímans.

Schlüter gegndi þingmennsku á árunum 1964 til 1994, en að þingmannsferlinum loknum var hann kjörinn á Evrópuþingið þar sem hann átti sæti til 1999. Á fyrstu árum sínum sem Evrópuþingmaður gegndi Schlüter embætti varaforseta þingsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×