Fótbolti

Fimmtán ára stelpa þurfti leyfi dómara til að fá að spila í bandarísku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hin fimmtán ára gamla Olivia Moultrie í æfingaleik með Portland Thorns en nú má hún spila í bandarísku deildinni líka.
Hin fimmtán ára gamla Olivia Moultrie í æfingaleik með Portland Thorns en nú má hún spila í bandarísku deildinni líka. Getty/Craig Mitchelldyer

Olivia Moultrie er nafn sem knattspyrnuáhugamenn ættu að leggja á minnið. Hér er mögulega á ferðinni næsta stórstjarna bandaríska kvennalandsliðsins. Það hefur hins vegar verið vesen fyrir hana að fá að spila í bandarísku kvennadeildinni.

Ástæðan er kannski einföld. Stelpan er bara fimmtán ára gömul og NWSL er með átján ára aldurstakmark. Það efast enginn um að hún geti spilað í kvennadeildina en það eru bara reglurnar sem segja annað.

Olivia Moultrie er leikmaður gamla Íslendingafélagsins Portland Thorns og hún hefur bæði æft með liðinu og spilað æfingaleiki.

Bandarískir strákar mega spila í karladeildinni svona ungir og sömuleiðis er engin stórfrétt á Íslandi þótt svo ungar stelpur spili í Pepsi Max deildinni. Hér og í Evrópu eru þær bestu að koma mjög snemma inn í meistaraflokkana.

Það þurfti hins vegar Karen Immegurt dómara til að gefa Oliviu tímabundið leyfi til þess að semja við og spila með Portland Thorns liðinu í NWSL deidlinni. Hún nýtti sér það að öll liðin höfðu ekki kosið um aldursregluna heldur var það eitthvað sem deildin ákvað.

Nú verður fróðlegt að sjá hvernig Olivia nýtir tækifærið sitt og hvort að hún ráði við pressuna og væntingarnar. Rökin hjá forráðamönnum Portland Thorns, sem sömdu við hana þegar hún var aðeins fjórtán gömul, eru meðal annars þau að hún þurfi á þessari áskorun að halda núna til að geta orðið sá frábæri leikmaður margir halda að hún verði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×