Enski boltinn

Solskjær um kvöldið: Vonandi verður þetta byrjunin á einhverju meira

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær og landi hans Ronny Johnson með enska bikarinn á þrennutímabilinu 1998-99. Solskjær þekkir það sem leikmaður að vinna titla með Manchester United.
Ole Gunnar Solskjær og landi hans Ronny Johnson með enska bikarinn á þrennutímabilinu 1998-99. Solskjær þekkir það sem leikmaður að vinna titla með Manchester United. Getty/John Peters

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að úrslitaleikur Evrópudeildarinnar í kvöld muni skilgreina 2020-21 tímabilið hjá United.

Manchester United liðið fær í kvöld frábært tækifæri til að enda fjögurra ára bið sína eftir titli en liðið hefur enn ekki unnið undir stjórn Solskjær sem tók við á miðju 2018-19 tímabilinu.

Solskjær vann marga titla á sínum tíma sem leikmaður Manchester United þar á meðal Meistaradeildina vorið 1999 og ensku deildina sex sinnum.

„Þetta er lið sem við höfum verið endurbyggja undanfarin ár. Vonandi verður þetta byrjunin á einhverju meiru,“ sagði Ole Gunnar Solskjær á blaðamannafundi fyrir leikinn.

Mótherjarnir eru lið Villarreal sem endaði í sjöunda sæti í spænsku deildinni og það er því flestum ljóst að Manchester United er miklu sigurstranglegra í þessum úrslitaleik.

„Þetta er besti klúbbur í heimi. Það er bæði ánægjan og pressan sem fylgir því að vera í Manchester United liðinu. Það er líka það sem leikmennirnir eru tilbúnir í. Þeir hefðu ekki fengið samning hér nema af því að þeir eru toppleikmenn,“ sagði Solskjær.

„Þetta er stórt kvöld fyrir okkur og þetta gæti orðið áfangi á leið til bjartari framtíðar. Þessir leikmenn hafa verið að vinna saman í eitt og hálf ár. Næsta skref hjá þeim er að njóta þess að spila svona leiks saman. Ég hef séð að það er eitthvað að gerjast í leikmönnunum,“ sagði Solskjær.

Leikur Manchester United og Villarreal er sýndur beint á Stöð 2 Sport 2 og hefst útsendingin klukkan 18.50.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×