Fótbolti

Stað­festir að hann sé sá á förum frá Lyon og sé í við­ræðum við Barcelona

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Memphis virðist vera á leið til Katalóníu.
Memphis virðist vera á leið til Katalóníu. EPA-EFE/SEBASTIEN NOGIER

Hollendingurinn Memphis Depay, leikmaður Lyon í Frakklandi, hefur staðfest að hann sé á förum frá félaginu í sumar og sé í viðræðum við spænska stórveldið Barcelona.

Memphis ræddi við franska blaðið L´Equipe nýverið þar sem hann staðfesti að hann væri á förum frá Lyon í sumar. Hann gekk í raðir félagsins árið 2017 en hann lék áður með PSV Eindhoven í Hollandi og Manchester United í Englandi.

„Ég er breyttur maður, ég er þroskaðri. Hér varð ég að manni. Þegar ég horfi til baka þá tel ég veru mína hér hafa verið frábæra. Ég á minningar sem munu lifa með mér út ævina sem og vináttubönd. Þetta var heimili mitt,“ sagði Memphis um veru sína hjá Lyon.

Hann spilaði alls 177 leiki fyrir félagið, skoraði 76 mörk og lagði upp önnur 53.

Þessi 27 ára gamli Hollendingur verður samningslaus í sumar og þarf Barcelona því ekki að greiða fyrri hann. Börsungar virðast vera á höttunum á eftir leikmönnum sem ekki þarf að borga fyrir í sumar en Sergio Agüero ku vera á leiðinni til Katalóníu sem og Eric Garcia, samherji Agüero hjá Manchester City, og Gini Wijnaldum, miðjumaður Liverpool.

Memphis sagði einnig að hann væri í samningaviðræðum við Börsunga sem og fleiri lið. Það virðist þó allt stefna í að Hollendingurinn klæðist treyju Börsunga er tímabilið 2021/2022 hefst.


Spænski boltinn, La Liga, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. La Liga er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×