Fótbolti

Afturelding, Fjölnir og Selfoss með sigra í Lengjudeildinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kórdrengir þurftu að sætta sig við tap gegn Selfyssingum.
Kórdrengir þurftu að sætta sig við tap gegn Selfyssingum. Vísir/Hulda

Þrem leikjum var að ljúka í Lengjudeild karla í knattspyrnu. Fjölnir lagði Gróttu 1-0 á Extra vellinum, Afturelding gerði góða ferð í Ólafsvík og vann 5-1 útisigur og Selfyssingar sóttu 3-1 sigur gegn Kórdrengjunum.

Valdimar Jónsson skoraði eina mark leiksins strax á tíundu mínútu þegar Fjölnir tók á móti Gróttu. Fjölnir hefur nú unnið báða leiki sína í Lengjudeildinni, en Grótta er með einn sigur og nú eitt tap.

Kristífer Óskar Óskarsson gerði sér lítið fyrir og skoraði fjögur mörk fyrir Aftureldingu þegar þeir heimsóttu Víking Ólafsvík. Eftir aðeins átta mínútna leik var hann búinn að skora tvö mörk, áður en Valgeir Svansson breytti stöðunni í 3-0.

Hilmar Björnsson minnkaði muninn í 3-1 á 17. mínútu, en Kristófer fullkomnaði þrennuna eftir aðeins 28 mínútur.

Emmanuel Keke fékk að líta rauða spjaldið í liði heimamanna á 60. mínútu. Sjö mínútum seinna gulltryggði Kristófer Óskar 5-1 sigur gestanna með fjórða marki sínu.

Selfyssingar heimsóttu Kórdrengi í þriðja leik kvöldsins. Kenan Turudija kom gestunum yfir strax á fjórðu mínútu, en Hrvoje Tokic tvöfaldaði forystuna á 33. mínútu.

Davít Ásbjörnsson minnkaði muninn á 75. mínútu, en þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma fékk Arnleifur Hjörleifsson að líta rauða spjaldið í lið Kórdrengja.

Selfyssingar nýttu sér liðsmuninn, og Hrvoje Tokic tryggði 3-1 sigur tveim mínútum fyrir leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×