Innlent

Heiðmörk opin en reykingar bannaðar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá störfum slökkviliðs á þriðjudaginn. Í bakgrunni sést reykurinn úr eldgosinu í Fagradalsfjalli.
Frá störfum slökkviliðs á þriðjudaginn. Í bakgrunni sést reykurinn úr eldgosinu í Fagradalsfjalli. Vísir/Vilhelm

Göngustígar og akvegir í Heiðmörk eru opnir gestum þrátt fyrir gróðureldinn sem geisaði á þriðjudaginn. Reykingar og hvers kyns meðferð elds eða eldfæra er bönnuð í Heiðmörk á meðan veður er jafn þurrt og nú er. Gestir friðlandsins eru hvattir hugsa vel um náttúruna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Eldurinn fór yfir um 56 hektara lands við Hnífhól, milli Hjalladals og Löngubrekkna en alls er Heiðmörk um 3200 hektarar að stærð.

„Hluti svæðisins sem brann var skógi vaxinn og urðu sum trén illa úti. Talsverð aska og ryk er á svæðinu. Ef vindur er, getur rokið úr svæðinu og kann það að valda fólki óþægindum ef það er á ferð í nágrenninu – til dæmis við Þjóðhátíðarlund,“ segir í tilkynningu félagsins.

Skógræktarfélag Reykjavíkur bendir fólki einnig á vefsíðuna Gróðureldar, þar sem hægt er að fræðast um gróðurelda, forvarnir og viðbrögð við þeim.

Óvissustigi hefur verið lýst yfir á svæðinu frá Eyjafjöllum á Suðausturlandi og yfir á Snæfellsnes vegna þurrka undanfarið sem ekki sér fyrir endann á.


Tengdar fréttir

Næststærsti gróðureldur á Íslandi í fimmtán ár

Gróðureldurinn í Heiðmörk í gær virðist hafa verið sá næststærsti á Íslandi frá brunanum mikla á Mýrum í Borgarfirði fyrir fimmtán árum. Fyrstu fjórir mánuðir ársins voru þeir þurrustu í Reykjavík í meira en aldarfjórðung.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×