Körfubolti

Fallbaráttufimmtudagur í Domino's deildinni: „Finnst við vera með betra lið“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Annað hvort Haukar eða Höttur geta fallið í kvöld.
Annað hvort Haukar eða Höttur geta fallið í kvöld. vísir/hulda margrét/vilhelm

Það er sannkallaður fallbaráttufimmtudagur í Domino‘s deild karla í körfubolta í kvöld. Þá mætast fjögur neðstu liðin innbyrðis. Höttur sækir Hauka heim og ÍR tekur á móti Njarðvík.

Höttur og Haukar eru í tveimur neðstu sætunum með tólf stig bæði tvö, tveimur stigum á eftir Njarðvík, sem er í 10. sætinu, og fjórum stigum á eftir ÍR sem er í 9. sætinu.

Gríðarlega mikið er undir í leiknum í Ólafssal í kvöld en tapliðið fellur úr Domino‘s deildinni ef Njarðvík sigrar ÍR.

„Við erum vel stemmdir og ætlum að mæta tilbúnir í leikinn. Það er ekkert annað í stöðunni,“ sagði Eysteinn Bjarni Ævarsson, leikmaður Hattar, í samtali við Vísi. Hattarmenn voru þá nýlentir í Reykjavík.

Allt getur gerst

„Við horfum á þetta eins og hvern annan leik og vera klárir. Ef við gerum það getur allt gerst. En við vitum hvað er undir.“

Eysteinn Bjarni Ævarsson er í lykilhlutverki hjá Hetti.vísir/vilhelm

Eysteinn hefur ekki áhyggjur af því að mikilvægi leiksins og allt sem er undir í honum verði sligandi fyrir leikmenn.

„Nei, nei. Viðar hefur talað um það við okkur að það er enginn meira stressaður fyrir þessum leik en einhverjum öðrum. Við mætum með hausinn á réttum stað,“ sagði Eysteinn.

Höttur vann fyrri leikinn gegn Haukum, 90-84. „Við vitum að við getum unnið þetta lið og ef við mætum tilbúnir ætti það að ganga upp. En þeir eru með fínt lið og hafa bætt sig.“

Úrslitakeppnin okkar að byrja

Emil Barja segir alla Haukamenn meðvitaða um mikilvægi leiksins sem þeir ætli að vinna.

„Við nálgumst þennan leik eins og við séum að byrja úrslitakeppnina okkar. Við erum ekki stressaðir en spenntir og höfum undirbúið okkur vel. Ég reikna með að allir mæti klárir í þennan leik,“ sagði Emil.

Emil Barja hefur leikið með Haukum allan sinn feril fyrir utan eitt tímabil í KR.vísir/hulda margrét

Haukar unnu fyrstu þrjá leiki sína eftir síðasta hlé en töpuðu fyrir Val í síðustu umferð þrátt fyrir fína frammistöðu. Gangurinn í Haukaliðinu er því góður um þessar mundir og Sævaldur Bjarnason, sem tók við af Israel Martin, þykir hafa gert góða hluti.

„Það urðu áherslubreytingar. Ekki að við höfum verið ósáttir með gamla þjálfarann okkar en við vorum fastir í því að tapa og það þurfti einhverjar breytingar. Við breyttum aðeins til, breyttum um æfingar og leikplan og það lyfti okkur upp. Um leið og við tókum fyrsta leikinn sáum við að við vorum miklu betri en við höfðum sýnt,“ sagði Emil.

Héldum alltaf að þetta væri að koma

Haukar ætluðu sér sannarlega ekki að vera í fallbaráttu í vetur og Emil segir að það hafi kannski tekið menn þar á bæ nokkurn tíma að sætta sig við hlutskipti sitt, að þeir þyrftu að berjast með kjafti og klóm fyrir verunni í Domino‘s deildinni.

„Ætli það sé ekki bara góður punktur. Í allan vetur fannst manni eins og þetta væri að koma. En núna erum við hættir að hugsa um fortíðina og hugsum bara um þessa tvo leiki sem eru eftir,“ sagði Emil en í lokaumferðinni á mánudaginn sækja Hauka Þór Ak. heim. Á sama tíma tekur Höttur á móti deildarmeisturum Keflavíkur.

Sem fyrr sagði töpuðu Haukar fyrri leiknum gegn Hetti en það var fyrir fjórum mánuðum og mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá.

„Maður býst ekki við að þeir komi hingað og leyfi okkur að taka sigur. Við þurfum að vinna fyrir sigrinum. Mér finnst við vera búnir að undirbúa okkur og finnst við vera með betra lið. En maður veit að þetta verður hörkuleikur. Þetta er bara leikur um að halda sér uppi. Þeir koma líka alveg brjálaðir í þennan leik,“ sagði Emil að endingu.

Leikur Hauka og Hattar hefst klukkan 18:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Leikur ÍR og Njarðvíkur hefst klukkan 20:15 og verður sömuleiðis sýndur beint á Stöð 2 Sport. Leikir kvöldsins verða svo gerðir upp í Domino‘s tilþrifunum klukkan 22:00.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×