Atvinnulíf

Eitt sinn alltaf dragúldinn á morgnana, sérstaklega á mánudögum

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Þórarinn Ævarsson.
Þórarinn Ævarsson. Vísir/Vilhelm

Þórarinn Ævarsson segist ekki vita hvort hann eigi að titla sig sem framkvæmdastjóri, pizzubakara eða Spaðakónginn því allir eiga þessir titlar við. Þórarinn er fréttafíkill sem eitt sinn vaknaði alltaf sem dragúldinn B-týpa á morgnana. En nú er öldin önnur því í dag vaknar Þórarinn um áttaleytið  og sendir uppúr því lykilstarfsmönnum sínum hrós og ábendingar. 

Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Sem unglingur var ég B týpan.Fór alltaf of seint að sofa og vaknaði síðan dragúldinn, sérstaklega á mánudögum. Fór síðan að læra bakstur og starfaði við það í tíu ár. Breyttist þá í algera A manneskju og hef eiginlega verið það síðan. 

Núna er hinsvegar staðan sú, að ég er iðulega að vinna fram á kvöld, sem þýðir að ég fer þá seinna á fætur en vanalega, eða rétt fyrir klukkan átta.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Ég er fréttafíkill þannig að ég byrja daginn á að fara yfir það helsta í Mogganum og Fréttablaðinu, auk þess sem ég hlusta á útvarpsfréttir og fer á netið.

Einu sinni í viku er síðan alger lúxus þegar ég fæ þessu til viðbótar bæði Viðskiptablaðið og Bændablaðið, sem er í sérstöku uppáhaldi, en það er eitthvað svo spennandi að lesa smáauglýsingar um dráttarvélar og haugsugur.

Með þessu drekk ég nokkra bolla af svörtu kaffi og fæ mér síðan morgunmat.Þessa dagana er ég dálítið fastur í hafragrautnum, en þess á milli tek ég dellur eins og skyr með rjóma eða Special K.“

Af þeim bílum sem þú hefur átt, hvaða bíll er í uppáhaldi?

„Ég er búinn að eiga gríðarlega marga bíla gegnum árin, marga hverja eftirminnilega, en sá bíll sem ég held sennilega mest uppá var fyrsti Benzinn sem ég keypti.

Þetta var 230CE 1982 módelið. Ljósgræn sanseraður, tveggja dyra með helling af krómi og helling af kraft. Átti þennan bíl í fjöldamörg ár og fór um allar koppagrundir á honum. 

Fyrir utan það hvað þetta var fallegur bíll, þá var þetta í raun fyrsti bíllinn sem ég eignaðist sem var með alvöru aksturseiginleika.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

„Núna er allt á fullu í skipulagningu fyrir sumarið, en ég vænti þess að þegar samkomutakmarkanir líða undir lok, þá verði hér alger veisla. 

Spaðinn er lítið fyrirtæki og flestir stjórnendur eru með margþætta ábyrgð sem gerir það að verkum að það er talsvert púsluspil að skipuleggja frí lykilmanna á sama tíma og salan tekur kipp.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

„Allir morgnar byrja á að ég dagurinn á undan er krufinn til mergjar, sala kostnaður og annað markvert.

Ég sendi niðurstöðurnar ásamt hrósi eða ábendingum á þá lykilstarfsmenn innan fyrirtækisins sem hafa með þessi mál að gera, auk þess sem farið er yfir væntingar núlíðandi dags. 

Þetta er eitthvað sem ég vandi mig á að gera fyrir rúmum tuttugu árum og virkaði jafnvel hjá Dominos og í IKEA og það virkar sannarlega á Spaðanum.

Annars er ég er voða gamaldags hvernig ég geri hlutina. 

Er með skrifblokk fyrir framan mig á skrifborðinu og skrifa þar niður allt það sem ég þarf að gera. Haka síðan við þegar ég er búinn að klára verkefnið. 

Þessi aðferð er einföld, en er að virka mjög vel fyrir mig. 

Ég er líka með dagbók á skrifborðinu, gefna út af Tómasi Möller, þar sem ég skrái niður mikilvæga hluti, fundi og annað. Ég hef síðan haldið utan um þessar dagbækur, en það hefur oft komið sér vel að geta flett upp hvað maður var að gera fyrir kannski fimm árum, ef upp koma álitamál.“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Ég reyni að fara ekki mikið seinna í bælið en klukkan ellefu, en hef í vetur verið í smá hámhorfi á þætti eins og Breaking Bad og Fargo og þá freistast maður stundum til að taka aukaþátt, sem þá þýðir að maður fer allt of seint í háttinn.“


Tengdar fréttir

Sálin hans Jóns míns vinsælust og stjórnaði sjálf diskótekunum

Auður Lilja Davíðsdóttir, framkvæmdastjóri Sölusviðs Öryggismiðstöðvarinnar, myndi treysta sér til þess að keppa á stórmóti í skipulagningu, svo skipulögð er hún. Á morgnana stýrist fatavalið meðal annars af því hvað ljúfa röddin í símaappi eiginmannsins segir en frá unglingsárunum er það Sálin hans Jóns míns sem stendur upp úr.

Íþróttanördinn í Landsbjörg viðurkennir stríðni barna sinna

Nýr framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjörg, Kristján Harðarson, viðurkennir að hann sé algjör alæta á íþróttir. Svo mikill íþróttanörd er hann reyndar, að börnin gera að honum smá grín. Kristján skipuleggur verkefnin sín í lok hverrar vinnuviku en þessa dagana er annasamt í vinnunni; Ekki síst vegna eldgossins í Fagradalsfjalli.

Getur ekki lengur vaknað í rólegheitum á morgnana

Hera Grímsdóttir, forseti Iðn- og tæknifræðideildar við Háskólann í Reykjavík (HR), segir nýjasta fjölskyldumeðliminn, tíu vikna Bichon tík, vera að hrófla við allri hefðbundinni morgunrútínu. Heru finnst best að skipuleggja verkefni vikunnar á mánudögum og þar sem iðn- og tæknifræðideild HR hefur stækkað svo mikið frá því að hún var stofnuð fyrir tveimur árum, eru verkefni vikunnar æði mörg.

Öðruvísi prógram í grísavikum og vonlaus í hárgreiðslu dótturinnar

Reynir Örn Þrastarson, matreiðslumaður, sölufulltrúi hjá Heildsölu Ásbjörns Ólafssonar og lottókynnir, segir oft í gríni að vinnan hans felist í að trufla aðra kokka í sinni vinnu. Því starfið kallar á heimsóknir til viðskiptavina víðs vegar um landið. Í grísavikum er prógramið nokkuð frábrugðið því þá býr dóttir hans hjá honum. Sem segir hann algerlega vonlausan hárgreiðslumann.

Þökk sé Co­vid: Að verja doktors­rit­gerðina sína í Polly­önnu

Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu, segir starfsfólkið í Hörpu á heimsmælikvarða þegar það kemur að viðburðarhaldi, enda flókið að standa fyrir menningarviðburðum í því síbreytilega ástandi sem nú stendur yfir. Hún viðurkennir að hún sé algjör morgunhani og kvöldsvæf, en gift nátthrafni. Þau hjónin hafi þó orðið nokkuð flink í því að stilla sig saman inn á sameiginlegan miðbaug.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×