Erlent

Kín­verjar fram­leiða bólu­efni fyrir Rúss­land

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Rússar hafa ekki undan í framleiðslu bóluefnisins Sputnik V.
Rússar hafa ekki undan í framleiðslu bóluefnisins Sputnik V. AP/Pavel Golovkin

Rússland hefur gert samninga við þrjá kínverska lyfjaframleiðendur um framleiðslu á bóluefninu Sputnik V en framleiðendur í Rússlandi hafa ekki í við eftirspurn eftir efninu. Samningar hafa verið gerðir við kínversk fyrirtæki um framleiðslu á 260 milljón skömmtum af bóluefninu.

Með samningunum munu Rússar geta dreift bóluefninu á mun meiri hraða til ríkja í Suður-Ameríku, Mið-Austurlöndum og Afríku sem hafa þegar tryggt sér skammta af bóluefninu. Bandaríkin og Evrópusambandið hafa að mestu einbeitt sér að því að tryggja bóluefnadreifingu innan sinna ríkja og er því mikil eftirspurn eftir Covid-19 bóluefnum í ríkjum sem framleiða ekki eigin bóluefni.

Áhyggjur um virkni Sputnik V bóluefnisins hafa minnkað töluvert eftir að læknatímaritið The Lancet greindi frá því að niðurstöður víðtækra rannsókna gæfu til kynna að bóluefnið veitti vörn í 91 prósentum tilvika.

Undanfarið hafa áhyggjur hins vegar verið uppi um dreifingu bóluefnisins en Rússar hafa gert samninga við fjölda ríkja víða um heim um kaup á hundruð milljónum bóluefnaskammta. Hins vegar hefur aðeins brot af því verið afhent þeim ríkjum og því mikil þörf á hraðari framleiðslu efnisins.

Þá hefur Rússland gert samninga við lyfjaframleiðendur í ýmsum ríkjum, þar á meðal á Indlandi, Suður-Kóreu, Brasilíu, Serbíu, Tyrklandi, Ítalíu og fleirum um framleiðslu Sputnik V. Svo virðist þó vera sem framleiðendur utan Rússlands hafi ekki hafið framleiðslu af alvöru, nema í Hvíta-Rússlandi og Kasakstan.

Breska tölfræðistofan Airfinity hefur áætlað að Rússland hafi gert samninga um sölu á um 630 milljón skömmtum af Sputnik V við meira en 100 ríki en aðeins 11,5 milljón skammtar hafa verið afhentir hingað til.


Tengdar fréttir

Stefna brasilískum yfir­völdum fyrir meið­yrði vegna Spút­nik V

Framleiðandi rússneska kórónuveirubóluefnisins Spútnik V ætlar að stefna brasilísku heilbrigðiseftirlitsstofnuninni sem hafnaði beiðni nokkurra ríkja um að flytja efnið inn fyrir meiðyrði. Stjórnendur stofnunarinnar vísa ásökununum um meiðyrði á bug.

Pútín segir vesturlöndum að halda sig á mottunni

Stjórnvöld í Kreml ætla sér að bregðast harkalega við ef þau telja vestræn ríki fara yfir strikið gagnvart þeim. Þetta sagði Vladímír Pútín, forseti Rússlands, í stefnuræðu í morgun þar sem hann sakaði vestræn ríki ennfremur um aðild að „valdaránstilraun“ í Hvíta-Rússlandi.

Streymdu til Serbíu í ókeypis bólusetningu

Þúsundir streymdu frá Bosníu og Hersegóvínu, Svartfjallalandi og Norður-Makedóníu yfir landamærin til nágranna sinna í Serbíu í dag þar sem yfirvöld bjóða upp á ókeypis bólusetningu yfir helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×