Innlent

Nýjar reglur taka gildi á landamærum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Keflavíkurflugvöllur og Leifsstöð Fáir á ferli og flugvélum lagt vegna samkomubanns víða um heim vegna Covid-19
Keflavíkurflugvöllur og Leifsstöð Fáir á ferli og flugvélum lagt vegna samkomubanns víða um heim vegna Covid-19

Á morgun taka gildi nýjar reglur á landamærum sem kveða á um bann við ónauðsynlegum ferðum frá hááhættusvæðum. Það er dómsmálaráðherra sem setur reglugerðina um bann við ónauðsynlegum ferðalögum sem gildir út maí.

Þannig verður útlendingum frá og með morgundeginum óheimilt að koma til landsins, komi þeir frá eða hafa dvalið í meira en sólarhring á síðasta tveggja vikna tímabili á svæði þar sem fjórtán daga nýgengi smita er yfir 700 á hverja hundrað þúsund íbúa. Sama gildir ef fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um svæðið. Á bannið við um alla útlendinga, hvort sem þeir eru borgarar EES og EFTA-svæðisins eða ekki.

Bannið nær aftur á móti ekki til útlendinga sem hafa fasta búsetu hér á landi eða vegna brýnna erindagjörða líkt og nánar er kveðið á um í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Von er á tveimur vélum frá ríkjum sem eru í B-flokki samkvæmt flokkun sóttvarnalæknis yfir svæði og lönd sem talin eru sérstök áhættusvæði vegna Covid-19. Þessi ríki eru Holland og Pólland en þar er 14 daga nýgengi smita 700 eða meira á hverja 100 þúsund íbúa.

Þeir sem eru að koma beint frá Hollandi og Póllandi, eða öðrum ríkjum í B-flokki, verða skilyrðislaust skikkaðir í sóttkvíarhús, þar sem þeir verða að sæta sóttkví þar til niðurstöður seinni skimunar liggja fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×