Innlent

Mál á hendur lögreglumanni um meint ofbeldi við handtöku fellt niður

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Lögreglumaðurinn hefur verið í leyfi frá störfum í fimm mánuði. 
Lögreglumaðurinn hefur verið í leyfi frá störfum í fimm mánuði.  vísir/vilhelm

Héraðssaksóknari hefur fellt niður mál á hendur lögreglumanni sem var til rannsóknar vegna meints ofbeldis við handtöku í Hafnarfirði í nóvember. Lögreglumaðurinn hefur snúið aftur til starfa eftir að hafa verið sendur í leyfi vegna málsins.

Lögreglumaðurinn var leystur undan starfsskyldum sínum tímabundið vegna handtöku manns í Hafnarfirði þann 6. nóvember í fyrra.

Greint var frá málinu í Fréttablaðinu þar sem fram kom að maðurinn hafi verið stöðvaður við Hvaleyrarholt vegna gruns um vörslu fíkniefna og hann hafi sagst vera með Covid-19. Var haft eftir sjónarvottum að fjórir lögreglumenn sem handtóku manninn hafi gengið of langt í aðgerðum sínum og sökuðu sjónarvottar lögreglumennina um gróft ofbeldi. Í blaðinu lýstu sjónarvottarnir því að einn lögreglumannanna hafi slegið hinn handtekna ítrekað í höfuðið með kylfu þar til hann rotaðist og féll á jörðina.

Lögreglumanninum, sem sagður var hafa slegið manninn í höfuðið, var vikið tímabundið frá störfum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vísaði málinu til héraðssaksóknara. Á meðal málsgagna voru upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna á vettvangi. 

Héraðssaksóknari hefur nú fellt málið niður þar sem það taldist ekki líklegt til sakfellis með hliðsjón af öllum málavöxtum. Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari. 

Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Hafnarfirði, staðfestir að lögreglumaðurinn sé kominn aftur til starfa. Hann hafi mætt aftur í byrjun vikunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×