Fótbolti

Enn tapar Le Havre

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Anna Björk í leiknum í dag.
Anna Björk í leiknum í dag. Le Havre

Íslendingalið Le Havre tapaði enn einum leiknum í frönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag og fátt virðist geta komið í veg fyrir að liðið falli úr efstu deild. Í dag tapaði liðið 2-0 á heimavelli fyrir Dijon.

Íslendingarnir þrír voru í byrjunarliðinu er Dijon var í heimsókn. Anna Björk Kristjánsdóttir var í miðri vörninni með fyrirliðabandið að venju. Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir var á miðri miðjunni og Berglind Björg Þorvaldsdóttir upp á topp. 

Þær léku allan leikinn en það  dugði ekki í dag. Tvö mörk með tveggja mínútna millibili um miðjan fyrri hálfleik gerðu út um leikinn. Gestirnir 2-0 yfir í hálfleik og reyndust það lokatölur.

Þá var Svava Rós Guðmundsdóttir ekki í leikmannahóp Bordeaux sem vann Issy 1-0 á heimavelli. Bordeaux er nú í 3. sæti deildarinnar, sjö stigum á eftir Söru Björk Gunnarsdóttur og stöllum hennar í Lyon. Síðarnefnda liðið á einnig tvo leiki til góða.

Le Havre situr sem fastast á botni deildarinnar með aðeins fimm stig, sex stigum frá öruggu sæti, þegar fjórar umferðir eru eftir af deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×