Fótbolti

Mitro­vic hetja Serbíu og Kýpur með ó­væntan sigur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tryggði Serbíu sigur í dag og er orðinn markahæsti leikmaður landsins frá upphafi.
Tryggði Serbíu sigur í dag og er orðinn markahæsti leikmaður landsins frá upphafi. Srdjan Stevanovic/Getty Images

Óvæntum úrslitum í undankeppni HM 2022 í knattspyrnu virðist hvergi nærri lokið. Kýpur vann 1-0 sigur á Slóveníu nú rétt í þessu og þá reyndist Aleksandar Mitrović hetja Serbíu í Aserbaísjan er gestirnir unnu 2-1 sigur.

Í H-riðli vann Kýpur óvæntan 1-0 sigur á Slóveníu þökk sé marki Ioannis Pittas undir lok fyrri hálfleiks. Reyndist það sigurmark leiksins og heimamenn eru nokkuð óvænt í 2. sæti riðilsins með fjögur stig að loknum þremur leikjum.

Rússar er á toppnum með sex stig að loknum tveimur leikjum, Króatar því 3. með þrjú stig að loknum jafn mörgum leikjum en Slóvenía í 4. sæti með aðeins þrjú stig eftir að hafa leikið þrjá leiki.

Í Aserbaísjan var það Aleksandar Mitrović sem sá til þess að Serbía var 1-0 yfir í hálfleik. Heimamenn fengu vítaspyrnu þegar tæp klukkustund var liðin og skoraði Ermin Makhmudov af öryggi úr spyrnunni og staðan orðin 1-1.

Þannig var hún allt fram á 81. mínútu þegar Mitrović skoraði annað mark sitt og annað mark Serbíu með góðu skoti fyrir utan vítateig. Staðan orðin 2-1 og reyndust það lokatölur leiksins. 

Mitrović hefur nú skorað 41 mark í treyju Serbíu og er þar með orðinn markahæsti leikmaður í sögu landsins. 

Serbía er á toppi A-riðils með sjö stig að loknum þremur leikjum en þar á eftir kemur Portúgal með fjögur stig eftir tvo leiki. Aserar reka lestina án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×