Viðskipti innlent

Lindex hyggst opna á Selfossi

Atli Ísleifsson skrifar
Albert Þór Magnússon og Lóa D. Kristjánsdóttir.
Albert Þór Magnússon og Lóa D. Kristjánsdóttir. Lindex

Lindex mun opna verslun á Selfossi í ágúst og verður hún til húsa í því rými sem nú hýsir sérverslun Hagkaupa. Hagkaup lokar sinni verslun í júní.

Frá þessu segir í tilkynningu frá Lindex á Íslandi. Þar segir að verslunin verði sú stærsta sem Lindex hafi opnað utan Reykjavíkur.

Haft er eftir Lóu D. Kristjánsdóttur, umboðsaðila Lindex á Íslandi, að þau hafi leitað lausna í nokkur ár til að fylgja eftir opnunum á Akranesi, Suðurnesjum og á Egilsstöðum með verslun í heimabæ þeirra, á Selfossi.

„Áhuginn hefur ekki látið á sér standa en það er mikið gleðiefni að samningar skuli hafa náðst við Haga um verslunarrýmið við hlið Bónus. Við mátum það svo að við vildum hafa verslunina á Selfossi stærri en áður hafði verið kynnt og bjóða uppá allar vörulínur Lindex. Nýja verslunin verður því stærsta Lindex verslun okkar utan höfuðborgarsvæðisins, tæpir 700 fermetrar og stóð því öðrum valkostum framar,“ segir Lóa.

Lindex rekur nú átta verslanir á Íslandi – í Smáralind, tvær verslanir í Kringlunni, Glerártorgi á Akureyri, Akranesi, Suðurnesjum, Egilsstöðum ásamt verslun á netinu.

Í tilkynningunni segir að verslun Lindex á Selfossi muni opna þann 7. ágúst, þegar hátíðin Sumar á Selfossi stendur yfir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×