Fótbolti

Sviss og Dan­mörk byrja undan­keppnina á úti­sigrum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sviss byrjaði leik kvöldsins af miklum krafti.
Sviss byrjaði leik kvöldsins af miklum krafti. EPA-EFE/Vassil Donev

Sviss og Danmörk byrja undankeppnina fyrir HM 2022 í Katar á góðum útisigrum. Sviss vann Búlgaríu 3-1 á meðan Danmörk vann Ísrael 2-0.

Sviss var ekki í miklum vandræðum í fyrsta leik C-riðils í undankeppni HM 2022 í dag. Það tók liðið í raun aðeins þrettán mínútur að klára leik sinn gegn Búlgaríu á útivelli. Breel Embolo kom Sviss yfir á 7. mínútu. Þremur mínútum síðar skoraði Haris Seferovic annað mark Sviss eftir sendingu Xerdan Shaqiri.

Staðan orðin 2-0 gestunum í vil eftir aðeins tíu mínútna leik og þremur mínútum síðar kom þriðja markið sem gerði svo gott sem út um leikinn. Þar var að verki Steven Zuber, einnig eftir sendingu Shaqiri.

Eftir það róaðist leikurinn aðeins og staðan enn 0-3 er flautað var til hálfleiks. Kiril Despodov minnkaði muninn fyrir heimamenn í upphafi síðari hálfleiks en nær komust þeir ekki og lokatölur 3-1 Sviss í vil.

Í F-riðli tók Ísrael á móti Danmörku. Martin Braithwaite, framherji Barcelona, var allt í öllu í upphafi leiks en á sjöundu mínútu fékk hann gult spjald fyrir klaufalegt brot. Hann bætti upp fyrir það með því að skora fyrsta mark leiksins þegar hann lyfti boltanum snyrtilega yfir Ofir Marciano í marki Ísrael.

Var það eina mark fyrri hálfleiks og var staðan 1-0 allt þangað til Jonas Wind tvöfaldaði forystu gestanna á 67. mínútu. Staðan orðin 2-0 og reyndust það lokatölur leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×