Innlent

Vísindaráð almannavarna: Kvika mun ekki brjóta sér leið upp á öðrum stað í bráð

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Vísindamenn voru sammála um að ekki væru vísbendingar um að kvika annars staðar í kvikuganginum nálgaðist yfirborð.
Vísindamenn voru sammála um að ekki væru vísbendingar um að kvika annars staðar í kvikuganginum nálgaðist yfirborð. Vísir/Egill

Engar vísbendingar eru um að kvika muni nálgast yfirborð á öðrum stað kvikugangsins í bráð. Þetta er niðurstaða fundar Vísindaráðs almannavarna sem kom saman í dag til að bera saman bækur sínar.

Vísindamenn voru einnig sammála um að eftir að gjósa tók í Geldingadal hafi litlar breytingar orðið nema á landslaginu næst gígunum. Þetta segir Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Mælingar hafa þá sýnt að flúor hefur mælst í regnvatni í pollum sem eru nálægt eldstöðvunum en það getur reynst hættulegt dýrum. Matvælastofnun er með málið á sinni könnu og von er á leiðbeiningum frá stofnuninni þar að lútandi.

Elísabet segir að sviðsmyndirnar séu í öllum meginatriðum þær sömu og áður. Vísindamenn vilja ekki útiloka möguleika á stærðarinnar skjálfta í Brennisteinsfjöllum.

Yfir þrjú hundruð skjálftar hafa orðið í dag – allir minniháttar. Virknin hefur aðallega verið við Reykjanestá, Svartsengi og Trölladyngju.


Tengdar fréttir

Gasmengun leggur yfir stikuðu gönguleiðina

Guðmundur Eyjólfsson, vettvangsstjóri lögreglunnar á Suðurnesjum, ráðleggur fólki að bíða með að leggja af stað í átt að gosstöðvunum í Geldingadal vegna gasmengunar sem leggur yfir stikuðu gönguleiðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×