Fótbolti

Rapinoe: Við höfum ekki hugmynd um það hversu langt kvennaíþróttir geta náð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Megan Rapinoe í Hvíta húsinu í gær.
Megan Rapinoe í Hvíta húsinu í gær. AP/Manuel Balce Ceneta

Knattspyrnukonan og kvenréttandabaráttukonan Megan Rapinoe er hvergi nærri hætt að berjast fyrir jöfnum launum kynjanna í knattspyrnuheiminum enda er langur vegur að því ófarinn ennþá.

Nú síðast talaði Rapinoe um það sem heimurinn væri að missa af miklu með því að nýta sér ekki alla möguleika kvenfólks í íþróttum.

Baráttumál Rapinoe hefur verið að landsliðskonur Bandaríkjanna fái jafnmikið borgað og landsliðsmenn Bandaríkjanna. Bandarísku stelpurnar hafa náð miklu miklu betri árangri en fá mun minna borgað.

Megan Rapinoe hefur unnið gull með bandaríska landsliðinu á ÓL í London 2012, HM í Kanada 2015 og á HM í Frakklandi 2019 þar sem hún var bæði besti leikmaður og markadrottning heimsmeistaramótsins.

„Með skorti á alvöru fjárfestingu þá fáum við aldrei að vita hversu langt kvennaíþróttir geta náð,“ sagði Megan Rapinoe í myndbandi sem var sýnt á fundi þingnefndar um jöfn laun kynjanna.

„Við vitum nú hversu vel hefur gengið hjá íþróttakonum þrátt fyrir allt misréttið og þrátt fyrir skort á fjárfestingu að öllum sviðum í samanburði við karlmennina,“ sagði Megan.

„Við konurnar í bandaríska landsliðinu höfum unnið fjóra heimsmeistaratitla og fjögur Ólympíugull fyrir okkar þjóð. Við höfum fyllt leikvanga, brotið áhorfsmet og treyjur okkar hafa selst upp. Þrátt fyrir þetta þá fáum við enn minna borgað en karlarnir, fyrir hvern titil, fyrir hvern sigur, fyrir hvert jafntefli og fyrir hvert skipti sem við spilum. Minna. Við þurfum ekki að bíða lengur. Við þurfum ekki að vera þolinmóðar. Við getum breytt þessu í dag. Núna. Við þurfum bara að vilja það,“ sagði Megan.

Framkoma bandaríska knattspyrnusambandsins hefur farið mjög illa í Megan Rapinoe og félaga hennar í landsliðinu en sambandið hefur gert allt til að berjast á móti körfum fótboltakvennanna og hafa unnið að því á bak við tjöldin að gera lítið úr þeirra framsetningu.

Megan Rapinoe hitti síðan í gær Joe Biden Bandaríkjaforseta og konu hans Jill Biden í Hvíta húsinu en hún mætti þangað með bandaríska landsliðinu. Baráttunni er hvergi nærri lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×