Handbolti

Tileinkaði föllnum félaga Ólympíusætið og með tattú af honum á upphandleggnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rui Silva er með flennistórt flúr af Alfredo Quintana á hægri upphandleggnum.
Rui Silva er með flennistórt flúr af Alfredo Quintana á hægri upphandleggnum. instagram-síða rui silva

Leikmenn portúgalska landsliðsins tileinkuðu Alfredo Quintana heitnum Ólympíusætið sem þeir náðu í gær.

Portúgal tryggði sér sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó með ævintýralegum sigri á Frakklandi í gær, 29-28. Rui Silva skoraði sigurmark Portúgala úr hraðaupphlaupi í þann mund sem leikurinn kláraðist.

Sigurinn var stór fyrir Portúgali. Þetta er ekki bara í fyrsta sinn sem þeir komast á Ólympíuleikana heldur gerðu þeir það eftir að hafa orðið fyrir gríðarlega miklu áfalli í síðasta mánuði þegar aðalmarkvörður þeirra, Alfredo Quintana, lést, aðeins 32 ára.

Eftir að Silva skoraði sigurmark Portúgals benti hann til himins og ljóst var að Quintana var honum ofarlega í huga á þeirri stundu.

Ekki nóg með að Silva hafi minnst Quintana með þessum hætti heldur er hann með stórt húðflúr af markverðinum á hægri upphandlegg sínum.

Silva birti mynd af flúrinu á Instagram í gær með fallegum skilaboðum til fallins félaga. Í mjög lauslegri þýðingu segir þar: „Þú hljópst með mér, skaust með mér og skoraðir með mér. Nú förum við saman til Tókýó og saman höldum við áfram að skrifa söguna. Fyrir þig, í dag og alla daga.“

Silva og Quintana voru ekki bara samherjar í landsliðinu heldur einnig hjá Porto. Fjölmargir portúgalskir landsliðsmenn leika með því sterka liði.

Frakkland og Portúgal komust áfram úr riðlinum en Króatía og Túnis sátu eftir með sár ennið. Króatar voru allt annað en sáttir og töldu að Frakkar hefðu kastað sigrinum viljandi frá sér. Frakkland var þremur mörkum yfir, 25-28, þegar fjórar mínútur voru eftir en Portúgal skoraði síðustu fjögur mörk leiksins.

Melvyn Richardson fór sérstaklega illa að ráði sínu undir lokin en hann átti tvö misheppnuð skot og tapaði svo boltanum í lokasókn Frakka. Á myndbandi sem sænski blaðamaðurinn Johan Flinck birtir á Twitter mátti sjá Nicolas Tournat blikka í átt til Richardson í leikhléi Frakka fyrir lokasókn þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×