Innlent

Skjálfti fimm að stærð sunnan við Fagradalsfjall

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Svæðið sunnan við Fagradalsfjall.
Svæðið sunnan við Fagradalsfjall. Vísir/Vilhelm

Snarpur jarðskjálfti varð klukkan 12:34. Samkvæmt Veðurstofu Íslands var skjálftinn fimm að stærð og átti upptök sín í Sunnanverðu Fagradalsfjalli.

Skjálftinn fannst vel víða um land, á höfuðborgarsvæðinu, Selfossi og víðar, eftir upplýsingum sem fréttastofu hafa borist.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni kemur fram að um sé að ræða stærsta skjálfta sem orðið hefur á svæðinu síðan 12. mars, fyrir tveimur dögum, en þá varð skjálfti sem einnig var fimm að stærð klukkan 07:43. 

Samkvæmt tilkynningunni hefur enginn órói mælst í kjölfarið.

Annar minni jarðskjálfti varð á svipuðum slóðum kl. 12:51. Samkvæmt frumniðurstöðum Veðurstofunnar mældist hann 3,2 að stærð.

Talsverð virkni í nótt

Í nótt mældust sjö skjálftar að stærð þrír eða meira á Reykjanesskaga, sá stærsti 4,2. Sá varð klukkan 4:40.

Hann átti upptök sín á um 3,6 kílómetra dýpi um 2,7 kílómetra suðsuðvestur af Fagradalsfjalli klukkan 4:40 samkvæmt sjálfvirkum mælingum Veðurstofu Íslands.

Aðrir stærri jarðskjálftar sem mældust í nótt voru á bilinu 3,0 til 3,7 að stærð. Upptök þeirra allra voru sunnan við Fagradalsfjall.

Síðustu tvo sólarhringana hafa tæplega 2.200 jarðskjálftar mælst. Af þeim hafa 56 verið stærri en þrír.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×