Fótbolti

Bayern óð í færum en skoraði „bara“ þrjú mörk og ó­farir Schalke halda á­fram

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lewandowski fékk nóg af færum í dag en lét það nægja að skora eitt.
Lewandowski fékk nóg af færum í dag en lét það nægja að skora eitt. Friso Gentsch/Getty

Bayern München er með fimm stiga forskot á RB Leipzig eftir 3-1 sigur þýsku meistaranna á Werder Bremen í dag.

Leon Goretzka kom Bayern yfir á 22. mínútu og þrettán mínútum síðar tvöfaldaði Serge Gnabry forystuna en Thomas Muller lagði upp tvö fyrstu mörk leiksins.

Robert Lewandowski skoraði þriðja markið á 67. mínútu en með markinu varð hann jafn Klaus Fischer í flest mörk í þýsku úrvalsdeildinni, eða 268 talsins.

Niclas Fuellkrug minnkaði muninn á 86. mínútu og lokatölur 3-1 þrátt fyrir að gestirnir frá Bæjarlandi hafi fengið ansi mörg góð færi.

Leipzig spilar á morgun gegn Eintracht Frankfurt á heimavelli og getur minnkað forystu Bayern í tvö stig.

Wolfsburg rúllaði yfir Schalke 5-0. Schalke er á botninum með tíu stig en þeir eru ellefu stigum frá öruggu sæti. Wolfsburg er í þriðja sætinu, tíu stigum frá toppliði Bayern.

Union Berlin vann svo 2-1 sigur á Köln og Mainz vann 1-0 sigur á Freiburg. Dortmund mætir svo Hertha Berlín klukkan 18.30 í síðasta leik dagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×