Innlent

Stefnir ráðherra vegna ólögmætrar uppsagnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Staða Björns hjá Umhverfisstofnun var lögð niður og honum sagt upp. Hann telur uppsögnina ólögmæta.
Staða Björns hjá Umhverfisstofnun var lögð niður og honum sagt upp. Hann telur uppsögnina ólögmæta. Vísir/Vilhelm

Fyrrverandi upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar hefur stefnt Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfisráðherra, vegna þess sem hann telur hafa verið ólögmæta uppsögn. Forstjóri stofnunarinnar sagði Birni upp þegar starf hans var lagt niður fyrr á þessu ári.

Mbl.is segir frá því að Björn Þorláksson hafi höfðað mál vegna uppsagnarinnar. Hann krefjist þess að fallið verði frá því að leggja niður starf upplýsingafulltrúa og að honum verði boðið starfið aftur. Annars krefjist hann bóta vegna tjóns sem hann hljóti af atvinnumissinum.

Björn var ráðinn upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar úr hópi áttatíu umsækjenda árið 2016. Hann var áður í framboði í prófkjöri Pírata í Norðausturkjördæmi og þar áður stýrði hann vef fjölmiðilsins Hringbrautar og staðarblaðinu Akureyri vikublaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×