Fótbolti

Berg­lind Björg endaði á bráða­mót­tökunni í janúar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Berglind Björg í leik með Le Havre.
Berglind Björg í leik með Le Havre. Le Havre

Landsliðsframherjinn Berglind Björg Þorvaldsdóttir þurfti að fara á bráðamóttökuna eftir að hafa farið full geyst af stað með liði sínu Le Havre í Frakklandi eftir að hún greindist með kórónuveiruna fyrir áramót.

Þetta kom fram í viðtali Berglindar við Fótbolti.net.

„Ég greinist með Covid-19 í byrjun desember og missi af leiknum gegn PSG. Sem betur fer var jólafrí eftir þann leik svo ég hafði smá tíma til að jafna mig eftir veikindin. Ég kem svo til Íslands þann 23. desember og fer aftur út tíu dögum seinna. Þar tekur við tveggja vikna undirbúningstímabil,“ líkami Berglindar var engan veginn tilbúinn í það.

„Ég var ekki búin að ná að æfa neitt eftir að ég greindist með Covid-19, svo fer ég beint í það að æfa tvisvar á dag,“ sagði Berglind í viðtalinu.

Eftir tveggja vikna „undirbúningstímabil“ spilar Berglind Björg leik gegn Issy en í kjölfarið var hún lögð inn á bráðamóttökuna.

„Ég fer svo í rannsóknir þar og myndatöku tveimur dögum seinna. Þá kemur í ljós að ég var með vökva í kringum hjartað og lungun. Í kjölfarið var ég sett á tíu daga lyfjakúr og sagt að hreyfa mig ekki neitt á meðan. Eftir það tók við endurhæfing og sex vikum seinna næ ég að spila aftur,“ bætti Berglind Björg við.

Berglind Björg var í byrjunarliði Le Havre um liðna helgi sem og Anna Björk Kristjánsdóttir og Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir. Framherjinn kveðst vera orðin góð og er þakklát fyrir að vera komin aftur inn á völlinn.

Það er ljóst að Le Havre þarf á kröftum hennar að halda en félagið er í bullandi fallbaráttu. Liðið mætir Montpellier á heimavelli á morgun í leik sem Le Havre verður einfaldlega að vinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×