Innlent

Vegir víða lokaðir vegna ófærðar og vonskuveðurs

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Myndin er fengin úr vefmyndavél Vegagerðarinnar á Öxnadalsheiði kl. 07:15. Skyggni virðist vera afar lítið á heiðinni.
Myndin er fengin úr vefmyndavél Vegagerðarinnar á Öxnadalsheiði kl. 07:15. Skyggni virðist vera afar lítið á heiðinni. Vegagerðin

Vegir eru lokaðir víða um land vegna ófærðar og vonskuveðurs. Þjóðvegi 1 við afleggjarann að Hvammstanga var lokað í gærkvöldi og er vegurinn enn lokaður vegna slæms skyggnis og flutningabíla sem þvera veg.

Ekki verður hægt að losa bílana fyrr en veður gengur niður en flutningabíll rann til og þveraði veginn um sjöleytið í gærkvöldi en við það mynduðust langar raðir.

Þá er ófært á Öxnadalsheiði, Mývatnsöræfum og Möðrudalsöræfum en unnið er að mokstri á öllum leiðunum þremur samkvæmt tilkynningum Vegagerðarinnar.

Siglufjarðarvegur er lokaður vegna snjóflóðahættu, Víkurskarð er lokað vegna snjóa og vegurinn um Þverárfjall er ófær vegna veðurs. Holtavörðuheiði er opin en hálka er á veginum og skafrenningur á heiðinni.

„Þæfingsfærð er víða í Eyjafirði en annars hálka eða snjóþekja víðast hvar á vegum, skafrenningur og slæmt skyggni,“ segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.

Steingrímsfjarðarheiði er ófær vegna veðurs, Þröskuldar eru lokaðir vegna veður sem og Klettsháls. Þá er vegurinn um Súðavíkurhlíð lokaður vegna snjóflóðahættu og Dynjandisheiði er lokuð vegna veðurs.

„Þæfingsfærð er í Ísafjarðardjúpi og unnið að mokstri en hálka eða hálkublettir og skafrenningur á flestum öðrum vegum,“ segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.

Staðan á Austurlandi er síðan eftirfarandi:

„Hálka, hálkublettir eða snjóþekja á vegum. Hreindýrahjarðir eru víða við veg og hafa m.a. sést á Fagradal, við álverið á Reyðarfirði, í Álftafirði og Lóni. Vegfarendur er beðnir um að sýna aðgát.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×