Fótbolti

Arteta segir að sínir menn verði að hætta að gefa mörk

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arteta er búinn að fá nóg af því að sínir menn séu alltaf að gefa mörk.
Arteta er búinn að fá nóg af því að sínir menn séu alltaf að gefa mörk. EPA-EFE/Clive Brunskill

Mikel Arteta segir að lið sitt sé ekki öruggt áfram í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar eftir frábæran 3-1 sigur á útivelli gegn Olympiacos í kvöld.

„Við byrjuðum leikinn virkilega vel, vorum með stjórn á leiknum og sköpuðum mörg færi.“

„Við gáfum þeim mark þegar við reyndum að spila út frá markverði en við brugðumst vel við í kjölfarið og skoruðum tvö mörk. Allt í allt var þetta góður leikur og jákvæð úrslit en við verðum að hætta þessum mistökum sem eru að kosta okkur mörk,“ sagði Spánverjinn að leik loknum.

Arsenal gaf einnig mark í 1-1 jafntefli gegn Burnley á dögunum. Þá var liðið einnig að reyna spila sig í gegnum pressu andstæðinganna inn í eigin vítateig.

„Þetta snýst ekki um einbeitingu heldur hvenær þú spilar boltanum. Þetta snýst ekki um að hætta að spila eins og við erum að spila því þetta er einkenni okkar. Við vorum virkilega þéttir og réðum leiknum. Við sýndum mikinn styrk í því að koma hingað og stýra leiknum líkt og við gerðum. Núna þarf að gera það í 90 mínútur.“

„Það er hálfleikur og það getur allt gerst. Næsti leikur byrjar í 0-0 og við ætlum að reyna vinna hann líka,“ sagði Arteta að lokum.


Evrópudeild UEFA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Evrópudeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×