Fótbolti

Veggur féll á íþróttafréttamann í beinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Orduz sést hér fullvissa alla um að það sé í lagi með hann en til hliðar má sjá vegginn hrynja yfir hann.
Carlos Orduz sést hér fullvissa alla um að það sé í lagi með hann en til hliðar má sjá vegginn hrynja yfir hann. Skjámynd

Carlos Orduz, íþróttafréttamaður ESPN, vissi ekki hvar á hann stóð veðrið í útsendingu ESPN í kólumbíska sjónvarpinu. Í rauninni er hann heppinn að vera á lífi.

Þeir sem á horfðu átta sig ekki alveg á því hvernig Carlos Orduz komst nokkuð óskaddaður frá því að fá yfir sig sviðsmyndarvegg en þar hafði óheppnasti maðurinn á svæðinu heppnina með sér eftir allt saman.

Carlos Orduz var þarna í beinni útsendingu hjá ESPN í Kólumbíu. Hann var mættur til að aðstoða við umfjöllum um knattspyrnu í þættinum ESPNFC Radio og var einn af fimm mönnum sem voru fyrir framan myndavélarnar í settinu.

Umsjónarmaður þáttarins var að útskýra eitthvað á öðrum skjá en gekk svo aftur fyrir Orduz og settist í sæti sitt fyrir miðju. Þá var skipt í víða mynd.

Orduz var á öðrum enda borðsins og átti sér einskis ills von þegar allt í hrundi yfir hann sviðmyndarveggur sem var fyrir aftan hann.

Þetta var ekki falleg sjón enda skall Orduz fram á borðið og veggurinn hamraðist síðan yfir hann. Þeir sem á horfðu efuðust um að hann kæmi varla heill undan veggnum.

Betur fór en á horfðist og Carlos Orduz slapp tiltölulega ómeiddur út atvikinu.

Til að fullvissa alla um að það væri í lagi með hann þá setti hann myndband inn á Twitter þar sem hann sagði frá líðan sinni og að hann hefði sloppið ótrúlega vel.

„Til þeirra sem skrifuðu mér og sendu mér kveðju vegna atviksins í gær þá vil ég láta ykkur vita að það er allt í lagi með mig, sem betur fer. Ég fór í læknisskoðun og hún kom vel út. Ég var bara með marbletti og blóðnasir en ekkert brotnaði. Kveðja og þakkir,“ skrifaði Carlos Orduz á Twitter. Hann setti síðan líka inn myndband til að sanna það að hann væri í lagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×