Erlent

Brúnt vatn og óætur matur: Líkir fangavistinni við pyntingar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
epa/Jason Szenes

Það er niðurlægjandi hvernig farið er með Ghislaine Maxwell í fangelsinu í New York, segir bróðir hennar Ian Maxwell. Hann líkir fangavistinni við pyntingar en Maxwell hefur verið sökuð um að hafa útvegað vini sínum Jeffrey Epstein stúlkur undir lögaldri.

Ian segir systur sinni haldið í 4,8 fermetra gluggalausum klefa, þar sem fylgst er með henni allan sólahringinn gegnum tíu myndavélar. Þá segir hann ekkert í klefanum nema steypt rúm og salerni. 

Vatnið sé brúnt og fæðið óætur örbylgjumatur.

Að sögn Ian hafa aðstæður Ghislaine orðið til þess að hún er að missa hárið, sér illa og á erfitt með að einbeita sér. Þá segir hann þær gera það að verkum að hún hafi ekki getað undirbúið sig fyrir réttarhöldin, sem hefjast eftir um fjóra mánuði.

Ghislaine var handtekinn í júlí í fyrra og hefur verið í haldi síðan þá. Hún freistar þess nú að fá lausn gegn tryggingu en hefur tvívegis verið neitað, meðal annars vegna þess að talið er líklegt að hún muni reyna að flýja.

Hún er með ríkisfang í Bretlandi, Bandaríkjunum og Frakklandi.

Gloria Allred, lögmaður meintra fórnarlamba Epstein, segir að lausn ætti að vera út úr myndinni. Hún tryði því vel að Maxwell þjáðist í fangelsinu en það ætti við um alla þá sem sitja í fangelsi.

Maxwell er gert að sök að hafa útvegað Epstein ungar stúlkur sem hann er sakaður um að hafa brotið gegn. Þá er hún sögð hafa kynnt hann fyrir áhrifamiklum mönnum á borð við Andrew prins og Bill Clinton.

Epstein svipti sig lífi í fangelsi en Maxwell á yfir höfði sér allt að 35 ára dóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×