Fótbolti

Lík fótboltamanns fannst eftir tveggja daga leit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Franco Acosta sést hér frá dögunum sínum með spænska félaginu Racing de Santander.
Franco Acosta sést hér frá dögunum sínum með spænska félaginu Racing de Santander. EPA-EFE/Pedro Puente Hoyos

Fótboltamaðurinn Franco Acosta fannst látinn í heimalandi sínu Úrúgvæ eftir að hafa reynt að synda yfir á með bróður sínum.

Franco Acosta var aðeins 25 ára gamall en hann er fyrrum leikmaður Villarreal og Racing Santander á Spáni.

Á laugardagskvöldið þá reyndi Franco Acosta að synda yfir Arroyo Pando ánna í Canelones sýslu en hann var þá á ferðinni með bróður sínum.

Bróðir hans sótti sér hjálp eftir Franco skilaði sér ekki yfir á hinn bakkann og leit hófst strax. Lík Franco fannst hins vegar ekki fyrr en tveimur dögum síðar.

Franco Acosta spilaði fyrir yngri landslið Úrúgvæ og var meðal annars með á HM 20 ára liði árið 2015. Í framhaldinu fékk hann samning hjá spænska félaginu Villarreal. Hann  hafði þá skorað 12 mörk í 17 leikjum með sautján ára landsliðinu og sex mörk í fjórtán landsleikjum með tuttugu ára landsliðinu.

Villarreal lánaði hann í sex mánuði til Racing Santander en árið 2018 snéri hann aftur heim til Úrúgvæ.

Acosta spilaði fyrst fyrir Boston River og svo með Plaza Colonia. Á síðustu leiktíð var hann aftur á móti kominn í b-deildarlið Atenas San Carlos.

Knattspyrnusamband Úrúgvæ minntist leikmannsins og sendi fjölskyldu, vinum og liðsfélögum Franco Acosta samúðarkveðjur.

Spænska félagið Villarreal minntist hans einnig á samfélagsmiðlum sínum sem og Racing Santander.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×