Erlent

Hundur Joes Biden til vand­ræða og sendur burt úr Hvíta húsinu

Atli Ísleifsson skrifar
Major er þýskur fjárhundur og sést hér að leik í Washington í janúar síðastliðinn.
Major er þýskur fjárhundur og sést hér að leik í Washington í janúar síðastliðinn. EPA/ADAM SCHULTZ

Tveimur hundum bandarísku forsetahjónanna Joe og Jill Biden, hefur verið vísað burt úr Hvíta húsinu í Washington og þeir sendir aftur til heimilis Biden-hjónanna í Delaware. Þetta var gert í síðustu viku eftir að annar hundanna, Major Biden, sýndi af sér árásargjarna hegðun.

CNN segir frá málinu, en Biden-hjónin tóku Major, sem er þýskur fjárhundur, upp á sína arma í nóvember 2018. Er hundurinn sagður hafa bitið ótilgreindan starfsmann öryggisteymis Hvíta hússins, en ekki er vitað um meiðsl mannsins sem var bitinn.

Atvikið er sagt hafa verið það alvarlegt að ákveðið var að senda hundana báða, Major og Champ, aftur til Wilmington í Delaware.

Hinn þriggja ára Major er yngri af Biden-hundunum tveimur og herma heimildir CNN að hann hafi ítrekað verið til vandræða í Hvíta húsinu.

Champ er þrettán ára gamall og sagður öllu rólegri í tíðinni en Major.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×