Enski boltinn

Nýi methafinn hjá Manchester United vill að nafnið hans sé borið rétt fram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shola Shoretire kom inn á hjá Manchester United í gær á móti Real Sociedad og setti nýtt met.
Shola Shoretire kom inn á hjá Manchester United í gær á móti Real Sociedad og setti nýtt met. AP/Dave Thompson

Shola Shoretire setti nýtt félagsmet hjá Manchester United í gærkvöldi þegar enska úrvalsdeildarliðið tryggði sér sæti í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Manchester United lagði grunninn að sæti í næstu umferð með 4-0 útisigri á Real Sociedad í fyrri leiknum og Ole Gunnar Solskjær gat því leyft sér að henda stráknum inn á völlinn.

Leikurinn endaði með markalausu jafntefli og United er í pottinum þegar dregið verður í dag.

Shola Shoretire sló í gærkvöldi met sam var búið að vera í eigu Norman Whiteside í rúmlega 38 ár eða síðan 15. september 1982.

Norman Whiteside var 17 ára og 131 dags gamall þegar hann spilaði með Manchester United á móti spænska liðinu Valencia á Old Trafford í fyrstu umferð UEFA-bikarsins.

Shoretire var 108 dögum yngri í gær eða 17 ára og 23 daga gamall.

Mason Greenwood og Gary Neville höfðu báðir verið nálægt því að bæta metið á þessum tíma en þeir spiluðu báðir Evrópuleik fyrir átján ára afmælið sitt.

Shola Shoretire þykir mjög efnilegur knattspyrnumaður og menn eru greinilega mjög spenntir fyrir honum á Old Trafford víst að hann er farinn að koma inn á í leikjum með aðalliðinu.

Shoretire fékk eina mínútu í síðasta deildarleik á móti Newcastle og svo fjórtán mínútur í gærkvöldi þegar hann kom inn á völlinn fyrir Mason Greenwood. Greenwood var 133 dögum eldri þegar hann spilaði sinn fyrsta Evrópuleik fyrir félagið á sínum tíma.

Shoretire er farinn að skapa sér nafn en það er eins og sumir knattspyrnusérfræðingar séu ekki alveg með nafnið hans á hreinu.

Knattspyrnustjórinn Ole Gunnar Solskjær ræddi nefnilega framburðinn á nafni Shoretire á blaðamannafundi eftir leikinn eins og sjá má hér fyrir neðan. Þar má líka heyra hvernig á að bera fram nafn Shoretire.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×