Innlent

Enginn skjálfti yfir þremur í nótt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá gasmælingum vísindamanna á Reykjanesi í fyrradag í kjölfar stóra skjálftans.
Frá gasmælingum vísindamanna á Reykjanesi í fyrradag í kjölfar stóra skjálftans. Vísir/Vilhelm

Skjálftahrinan á Reykjanesskaga er enn í gangi og hafa fjölmargir litlir skjálftar mælst í gærkvöldi og nótt á svæðinu.

Enginn þeirra hefur þó verið yfir þremur að stærð heldur hafa þeir flestir verið undir tveimur að stærð að sögn Einars Hjörleifssonar, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands.

Klukkan 05:58 varð þó einn skjálfti að stærðinni 2,5 um 0,7 kílómetra suðvestur af Keili samkvæmt töflu á vef Veðurstofunnar.

Einar segir engin merki um gosóróa á svæðinu en í dag fáist niðurstöður úr gervihnattamynd sem eigi að sýna hvort landris sé hafið eða hvort kvikuinnskot sé sjáanlegt.

Þá er skjálftavirknin enn bundin við það svæði sem verið hefur, það er frá Krýsuvík og Kleifarvatni að Þorbirni.

Enn er því engin virkni austan Kleifarvatns, nánar tiltekið í og við Brennisteinsfjöll, en vísindamenn hafa varað við því að skjálfti allt að 6,5 að stærð geti orðið á því svæði.

Á vef Veðurstofunnar segir í tilkynningu að skjálftahrinan sé enn í gangi en rúmlega 4.200 jarðskjálftar hafi verið staðsettir með sjálvirka jarðskjálftamælikerfi Veðurstofu Íslands frá því að hrinan hófst 24. febrúar. 

Stærsti skjálftinn í hrinunni mældist 5,7 að stærð og varð klukkan 10:05 síðastliðinn miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×