Innlent

Segir bæjar­búum líða illa vegna jarð­skjálftanna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur. Vísir/Egill

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir ekki góða stemningu í bænum í þeirri jarðskjálftahrinu sem nú gengur yfir Reykjanesið. Fólki líði illa og hafi í einhverjum tilfellum farið heim úr vinnu.

Þá hafi hann heyrt af því að fyrirtæki í bænum séu að draga úr starfsemi og jafnvel loka út daginn vegna hrinunnar.

Jarðskjálfti að stærð 5,7 reið yfir klukkan 10:05 í morgun. Upptök hans voru nærri Grindavík eða nánar tiltekið þrjá kílómetra suðsuðvestur af Keili.

Fannar kveðst ekki hafa heyrt af neinum stórum skemmdum en að einhvers staðar hafi hrunið úr hillum. Þá hafa margir misstórir eftirskjálftar fylgt í kjölfarið sem fundist hafa vel í bænum og víðar, til að mynda á höfuðborgarsvæðinu.

Á meðan blaðamaður ræddi við Fannar í síma kom til að mynda einn snarpur eftirskjálfti sem bæjarstjórinn fann vel.

Miklar jarðhræringar hafa verið á Reykjanesi allt frá því í byrjun árs í fyrra. Skemmst er að minnast stórs skjálfta sem varð í október. Hann mældist 5,6 að stærð og voru upptök hans við jarðhitasvæðið hjá Seltúni.

Aðspurður segir Fannar ekki búið að virkja almannavarnadeildina í bænum en vel sé fylgst með stöðunni. Þá hafa björgunarsveitir ekki verið kallaðar út vegna skjálftans samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×