Gagnrýni

I Care a Lot: Sturluð amerísk siðblinda

Heiðar Sumarliðason skrifar
Peter Dinklage og Rosamund Pike í hlutverkum sínum.
Peter Dinklage og Rosamund Pike í hlutverkum sínum.

Kvikmyndin I Care a Lot hefur nú verið tekin til sýningar í íslenskum kvikmyndahúsum. Hún fjallar um Mörlu Grayson (Rosamund Pike) sem starfar sem umsjónaraðili fyrir fólk sem getur ekki hugsað um sig sjálft.

Marla er ekki öll þar sem hún er séð, þar sem hún notfærir sér vel stæða einstæðinga. Hún lætur svipta þá sjálfræði og leggja inn á hjúkrunarheimili og í kjölfarið rænir hún þá hægt og rólega. Þetta kann að hljóma eins og einhver Kafka-leg þvæla sem gæti aldrei gerst í raunveruleikanum, en í fyrirheitna landinu Bandaríkjunum er þetta nú samt að eiga sér stað. 

Hér má t.d. lesa grein um eina þá kræfustu, April Parks, sem situr nú bak við lás og slá fyrir nákvæmlega það sem Marla stundar í I Care a Lot. Í greininni kemur m.a. fram að til að gerast umsjónaraðili þarf aðeins að ljúka eins dags námskeiði og vera með hreint sakavottorð. Því er þetta ágætis leið inn í glæpastarfsemi fyrir siðblinda, sem ekki hafa enn verið gripnir glóðvolgir við glæpi. 

Pike og Wiest í hlutverkum sínum.

Svikastarfsemi sem þessi er að sjálfsögðu leikur að eldi og einn dag hittir Marla á eldri konu sem hún hefði betur látið vera, þegar hún lætur svipta Jennifer Peterson (Diane Wiest) sjálfræði. Jennifer er hins vegar ekki öll þar sem hún er séð. Um leið og hún hefur verið lögð inn á hjúkrunarheimili fara skuggalegir aðilar, leiddir af Roman Lunyov (Peter Dinklage), að sakna hennar og þeir mun ekki að hvíla þar til Jennifer hefur verið skilað til síns heima.

Flöktandi tónn 

I Care a Lot er ekki beint hægt að setja í einn stakan kvikmyndaflokk. Á Imdb.com er hún sögð vera „Comedy - Crime - Thriller.“ Það vill hins vegar oft brenna við þegar kómík er kynnt inn í alvarlegar kringumstæður að kvikmyndagerðarfólk á erfitt með að finna rétta tóninn og falskar nótur slæðast inn hér og þar. Þetta gerist við og við hér.

Mig grunar að höfundur hennar, J Blakeson, sé innblásinn af kvikmyndum Coen-bræðra, sem eru meistarar í þessari blöndu glæpa og gamans. Þeir gæta sín hins vegar á að halda gegnum gangandi sama tóninum, sem Blakeson tekst ekki jafn vel að gera. Eitt dæmi er skósveinninn Alexei Ignatyev (Nicholas Logan), sem virðist vera út úr annarri og mun kjánalegri kómedíu en I Care a Lot. Það gengur eiginlega ekki upp að slíkur maður sé helsti skósveinn persónu Peters Dinklage. Þetta er einhvers konar tilraun Blakeson til að létta myndina, en er í raun óþarfi. Sérstaklega þar sem hann yfirgefur þennan létta tón að mestu eftir því sem myndinni vindur fram.

Alexei passar ekki alveg inn í myndina.

Þetta gerist stundum hjá kvikmyndahöfundum sem fara að efast um að sagan sjálf beri sig og reyna því að setja inn „comic relief“ persónur til að létta andrúmsloftið. Þetta er a.m.k. algjör óþarfi hér, því sagan sjálf er alveg nógu áhugaverð, sem er orðið heldur sjaldgæf gjöf á þessum Covid-tímum. Kvikmyndahúsagestir og streymisveitunotendur fá oftar en ekki að sjá þær myndir sem kvikmyndaverin hafa minni trú á, á meðan þau sitja á sínum helstu gersemum og ætla að bíða kófið af sér.  

I Care a Lot er þó hin prýðilegasta skemmtun sem heldur áhorfendum við efnið allan tímann. Það má svo sem alveg deila um hvernig Blakeson tekst til varðandi síðasta fjórðung myndarinnar, en sumir gagnrýnendur og áhorfendur hafa fett fingur út í þann hluta hennar. Persónulega angraði sú framvinda mig ekki, ég var hreinlega svo glaður að fá smá skemmtun á hvíta tjaldið að ég nennti ekki að pæla í því. 

I Care a Lot væri undir venjulegum kringumstæðum þriggja og hálfrar stjörnu mynd, en á þessum síðustu og verstu Covid-tímum, þá finn ég mig knúinn til að henda fjórum stjörnum á hana.

Niðurstaða:

Þó svo að I Care a Lot sé að einhverju leyti gölluð, er hún áhugaverð og skemmtileg frá upphafi til enda.

Heiðar Sumarliðason ræddi um I Care a Lot við ritstjóra Kvikmynda.is, Tómas Valgeirsson, í hlaðvarpsþættinum Stjörnubíói.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×