Erlent

Boeing 777-þotur kyrrsettar

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Brak úr Boeing 777-þotunni sem kviknaði í um helgina.
Brak úr Boeing 777-þotunni sem kviknaði í um helgina. Getty/Michael Ciaglo

Bandaríska flugfélagið United Airlines hefur kyrrsett 24 Boeing 777-þotur í flota sínum eftir að eldur kom upp í hreyfli einnar þeirrar á laugardaginn var.

Um 240 voru um borð í vélinni þegar atvikið átti sér stað og þurfti flugmaður vélarinnar að snúa henni aftur til Denver, þaðan sem hún hafði hafið sig til flugs skömmu áður. Engin slys yrðu á fólki. Stórir hlutar úr hreyflinum fundust í íbúðahverfi í úthverfi borgarinnar.

Japönsk flugmálayfirvöld hafa nú brugðist við atvikinu og bannað öllum Boeing 777 vélum sem nota samskonar hreyfla af gerðinni Pratt&Whitney að koma inn í japanska lofthelgi.

Boeing segist styðja við ákvörðun Japana og hefur mælst til þess að allar slíkar vélar sem eru í notkun eins og stendur verði kyrrsettar, en þær eru ekki nema um 69 á heimsvísu að því er fram kemur í frétt BBC. Þá eru til 59 vélar til viðbótar sem notast við þessa tilteknu hreyfla en þær eru ekki í notkun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×