Fótbolti

Monaco lagði PSG í París

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Monaco fagna öðru marki sínu í kvöld.
Leikmenn Monaco fagna öðru marki sínu í kvöld. Monaco

Svo virðist sem leikmenn Paris Saint-Germain hafi fagnað sigrinum gegn Barcelona í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í miðri viku full harkalega þar sem liðið tapaði 0-2 á heimavelli gegn Monaco í kvöld.

PSG vann stórbrotinn 4-1 sigur á Barcelona á Nývangi í Katalóníu í miðri viku en var kippt harkalega niður á jörðina er liðið fékk Monaco í heimsókn í frönsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Heimamenn stilltu upp svo gott sem sínu besta liði en Marco Veratti hóf leikinn á bekknum. Annars var um sama lið að ræða og lagði Börsunga á dögunum.

Ferðalagið hefur setið svona rosalega í leikmönnum Parísar en þrátt fyrir að vera með boltann 73 prósent af leiknum þá átti liðið aðeins eitt skot á mark andstæðinganna. Alls voru skotin níu en átta þeirra rötuðu ekki einu sinni á markið.

Sofiane Diop kom Monaco yfir strax á sjöttu mínútu og var staðan enn þannig í hálfleik. Þegar sex mínútur voru liðnar af síðari hálfleik tvöfaldaði Guillermo Maripan forystu gestanna.

Fleiri urðu mörkin ekki í kvöld og Monaco vann sannfærandi 2-0 sigur á Frakklandsmeisturunum. Monaco er nú aðeins tveimur stigum á eftir PSG en liðin eru í þriðja og fjórða sæti deildarinnar.

Lille tróna á toppnum með 58 stig og þar á eftir kemur Lyon með 55. PSG eru svo með 54 og Monaco 52 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×