Innlent

85 prósent landsmanna töldu Skaupið gott

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Villi Neto var á meðal þeirra sem fór að margra mati á kostum í Skaupinu.
Villi Neto var á meðal þeirra sem fór að margra mati á kostum í Skaupinu.

Áramótaskaupið 2020 var það besta sem sést hefur yfir síðasta áratug að mati landsmanna en 85 prósent þátttakenda í könnun MMR sögðu að þeim hafi þótt Áramótaskaupið mjög gott eða gott. Töldu 64 prósent svarenda Skaupið 2020 hafa verið mjög gott, 21 prósent sögðu það frekar gott, níu prósent bæði og, þrjú prósent frekar slakt og þrjú prósent mjög slakt.

Konur voru ánægðari með sjónvarpsþáttinn en karlar því 89 prósent kvenna sögðu Skaupið gott en 81 prósent karla. Ánægja mældist meiri meðal svarenda 30 ára og eldri (87 prósent 30-49 ára; 86 prósent 50 ára og eldri) heldur en meðal þeirra undir þrítugu (79 prósent). Lítill munur reyndist á afstöðu eftir búsetu svarenda.

Þá mældist ánægja almennt nokkuð há þvert á stuðning við stjórnmálaflokka, sem má mögulega taka til marks um hversu kærkomið ópólitískt Skaup hefur verið fyrir landann á tímum Covid faraldursins. Mest mældist ánægja meðal stuðningsfólks Vinstri grænna en 94 prósent þeirra kváðu Skaupið hafa verið frekar eða mjög gott, sem og 88 prósent stuðningsfólks Samfylkingarinnar og 87 prósent stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins. Minnst mældist ánægja meðal stuðningsfólks Miðflokksins en 73 prósent þeirra kváðu Skaupið hafa verið gott og 26 prósent sögðu það hafa verið frekar eða mjög slakt.

Í tilkynningu frá MMR segir að þetta sé ekki í fyrsta skiptið sem yfirgnæfandi gleði ríki í kjölfar Áramótaskaupsins. Mikil ánægja hafi mælst árin 2013 og 2017 þegar 81 prósent og 76 prósent sögðu Skaupið hafa verið gott. Árin 2012 og 2014 var minnst ánægja með Skaupið meðal landsmanna en þá sögðu 33 og 35 prósent landsmanna að Skaupið hefði verið gott.

Könnun MMR náði til 951 einstaklings átján ára og eldri sem valinn var handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Könnunin fór fram dagana 13. til 18. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×