Erlent

Gagn­rýnir Ástrali fyrir að svipta grunaðan ISIS-liða ríkis­borgara­rétti

Atli Ísleifsson skrifar
Jacinda Ardern segir að réttast væri að konan yrði send til Ástralíu í stað Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern segir að réttast væri að konan yrði send til Ástralíu í stað Nýja-Sjálands. Getty/Hagen Hopkins

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, hefur gagnrýnt áströlsk stjórnvöld harðlega fyrir að hafa einhliða svipt konu, sem handtekin var í Tyrklandi vegna gruns um tengsla við hryðjuverkasamtökin ISIS, ríkisborgararétti.

Áströlsk stjórnvöld hafa varið ákvörðunina, en konan var áður með tvöfaldan ríkisborgararétt, ástralskan og nýsjálenskan.

Ardern segir að réttast væri að konan yrði send til Ástralíu í stað Nýja-Sjálands. 

„Það er rangt að Nýja-Sjáland eigi að bera ábyrgð á stöðu sem felur í sér konu sem hafi ekki búið í Nýja-Sjálandi síðan hún var sex ára og hefur frá þeim tíma búið í Ástralíu, á þar fjölskyldu og fór frá Ástralíu til Sýrlands á áströlsku vegabréfi sínu,“ sagði Ardern í yfirlýsingu ig bætti við að allar sanngjarnar manneskjur myndu telja þessa manneskju vera ástralska. Það geri Ardern einnig. 

Vinni betur saman

Ardern hefur komið afstöðu nýsjálenskra stjórnvalda á framfæri við Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, og ítrekað að ríkin tvö eigi að vinna nánar saman að málum sem fela í sér tvöfaldan ríkisborgararétt.

Morrisson segir að konan hafi sjálfkrafa misst ríkisborgararétt sinn vegna tengsla sinna við hryðjuverkasamtökin og að það væri hans skylda að tryggja þjóðaröryggi í Ástralíu.

Þúsundir í fangelsum og flóttamannabúðum

Tyrknesk yfirvöld greindu frá því á mánudaginn að þrír Nýsjálendingar hafi komið ólöglega til Tyrklands frá Sýrlands, þar sem einn hafi haft tengsl við hryðjuverkasamtökin ISIS.

Þúsundir fyrrverandi grunaðra hryðjuverkamanna með tengsl við ISIS dvelja nú í fangelsum og flóttamannabúðum í Sýrlandi og Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×