Innlent

Fangi dæmdur fyrir hótanir og árás á sam­fanga á Litla-Hrauni

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin átti sér stað í einu eldhúsa fanga á Litla-Hrauni í maí 2019.
Árásin átti sér stað í einu eldhúsa fanga á Litla-Hrauni í maí 2019. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt fanga í tólf mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa ráðist á samfanga sinn í eldhúsi á Litla-Hrauni og sömuleiðis fyrir að hafa hótað öðrum manni ofbeldi.

Í ákæru kom fram að fanginn hafi í maí 2019 veist að öðrum manni, samfanga, endurtekið ógnað honum með hnífi og því næst kýlt hann ítrekað í andlit með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði og hlaut meðal annars blóðnasir, glóðarauga og mar í andliti.

Þá var ákærði sömuleiðis dæmdur fyrir að hafa hringt í annan mann og hótað honum ofbeldi ef hann myndi ekki hætta öllum samskiptum við ákveðinn einstakling. Hótanirnar fólust í því að „slys myndi verða og að ákærði þekkti aðila sem væru reiðubúnir til þess að brjóta andlit fyrir hann. Þá kvaðst [hann] vita hvar [maðurinn] og nánustu aðstandendur hans byggju.“

Fjórtán sinnum verið fundinn sekur

Ákærði viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um það sem rakið var í ákæru. Þá viðurkenndi ákærði bótaskyldu sína gagnvart brotaþola en mótmælti þó fjárhæðinni í kröfunni sem nam 1,5 milljónir króna og taldi hana of háa. 

Dómari dæmdi ákærða til greiðslu 500 þúsund króna í miskabætur, auk þess að hann var dæmdur til greiðslu alls sakar- og málskostnaðar.

Í dómnum kemur fram að ákærði hafi fjórtán sinnum verið fundinn sekur um refsivert athæfi, þar af átta sinnum ofbeldisbrot. Hafi hann ítrekað brotið gegn skilorði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×