Fótbolti

„El Loco“ í þrítugasta félagið á ferlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sebastian Abreu fagnar hér eftir að hafa skorað úr vítinu sem kom Úrúgvæ í undanúrslit á HM í Suður-Afríku árið 2010.
Sebastian Abreu fagnar hér eftir að hafa skorað úr vítinu sem kom Úrúgvæ í undanúrslit á HM í Suður-Afríku árið 2010. Getty/Dominic Barnardt

Gamli úrúgvæski landsliðsmaðurinn Sebastian „El Loco“ Abreu er ekki tilbúinn að leggja knattspyrnuskóna á hilluna.

Sebastian Abreu var í gær kynntur sem nýr leikmaður hjá brasilíska félaginu Athletic Club. Með því nær kappinn því takmarki að spila með þrítugasta félaginu sínu á ferlinum.

Abreu er orðinn 44 ára gamall og spilar sem framherji en fyrsti leikurinn var með Defensor Sporting í Úrúgvæ árið 1994.

Hann er búinn að eiga sæti í Heimsmetabók Guinness í fögur ár eða síðan að hann samdi við 26. félagið sitt árið 2017. Abreu skipti þá yfir í lið Audax Italiano í Síle. Sebastian hafði ekki spilað síðan á síðasta ári en hann lék þá með Boston River í heimalandi sínu.

„Þeir vildu fá mig á síðasta ári en þá gekk það ekki upp. Þegar félagið komst svo upp í fyrsta sinn í 51 ár og var að fara að spila í fyrstu deildinni í fylkinu þá hringdu þeir aftur í mig og vildu semja við mig. Þegar ég sé fólk sem hefur eins mikla trú á mér og ég sjálfur þá er ég til að koma,“ sagði Sebastian Abreu.

Abreu hefur gælunafnið „El Loco“ eða geðsjúklingurinn. Hann fór með landsliði Úrúgvæ á tvö heimsmeistaramót og hjálpaði landsliðinu að verða Suðurameríkumeistari árið 2011.

Alls skoraði Sebastian Abreu 26 mörk í 70 landsleikjum á ferlinum en hann skoraði líka úr sigurvítinu í vítakeppni á móti Gana á HM 2010 sem kom Úrúgvæ í undanúrslit keppninnar.

Abreu hefur spilað í ellefu mismunandi löndum á ferlinum en þau eru Úrúgvæ, Argentína, Spánn, Brasilía, Mexíkó, Ísrael, Grikkland, Paragvæ, Ekvador, Síle og El Salvador.

Abreu hefur farið mikið til Brasilíu en þetta verður hans fimmta brasilíska félag á ferlinum. Hann hafði áður spilað með Botafogo, Figueirense, Bangu og Rio Branco.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×